141. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2012.

greiðsla kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara.

498. mál
[14:22]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 166/2011, um greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara.

Tilefni þessa frumvarps er að breyta þarf hlutfalli af álagningarstofni, samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laganna, til að standa straum af kostnaði við rekstur umboðsmanns skuldara árið 2013, þ.e. gefin er upp ákveðin prósenta og það þarf að breyta þeirri prósentu með lögum.

Í lögunum er lagt til grundvallar að allir gjaldskyldir aðilar skuli greiða sama hlutfall af þeim álagningarstofni sem tilgreindur er. Með því fyrirkomulagi er leitast við að tryggja sanngjarna skiptingu rekstrarkostnaðar á milli gjaldskyldra aðila með hliðsjón af umfangi útlána hvers og eins aðila á tilteknu tímabili. Samkvæmt þessu ber sá aðili sem hefur hæst hlutfall útlána af heildarútlánum allra gjaldskyldra aðila á viðkomandi tímabili mestan kostnað vegna reksturs umboðsmanns skuldara. Það er bókstaflega sett þannig upp að menn borga í hlutfalli við útlán. Að sama skapi ber sá gjaldskyldi aðili sem hefur lægst hlutfall útlána minnstan kostnað vegna rekstursins. Er þá miðað við fjárhæð útlána en ekki fjölda þeirra.

Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. núverandi laga skulu gjaldskyldir aðilar greiða gjald sem nemur 0,03% af álagningarstofni samkvæmt 4. gr. Lögin gera ráð fyrir að umboðsmaður skuldara skuli árlega gefa velferðarráðherra skýrslu um áætlaðan rekstrarkostnað næsta almanaksárs, en í skýrslunni skulu meðal annars koma fram upplýsingar um það hlutfall sem gjaldskyldir aðilar skulu greiða af álagningarstofni laganna. Jafnframt er mælt fyrir um að skýrslunni skuli fylgja álit samráðsnefndar gjaldskyldra aðila á henni, en í þeirri nefnd eiga sæti fjórir fulltrúar gjaldskyldra aðila sem tilnefndir eru af Íbúðalánasjóði, Landssamtökum lífeyrissjóða og Samtökum fjármálafyrirtækja. Þá skal skýrslunni jafnframt fylgja afstaða umboðsmanns skuldara til álits samráðsnefndar gjaldskyldra aðila. Gefi niðurstaða skýrslu umboðsmanns skuldara tilefni til að breyta því hlutfalli af álagningarstofni sem gjald er miðað við kveða lögin á um að ráðherra skuli, telji hann þörf á slíkri breytingu í ljósi fyrirliggjandi gagna, leggja frumvarp fyrir Alþingi þar sem lögð er til breyting á gjaldi samkvæmt 5. gr. laganna. Enn fremur gera lögin ráð fyrir að við ákvörðun á fjárhæð gjaldsins skuli tekið tillit til þess hvort fyrir liggi rekstrarafgangur eða rekstrartap á starfsemi umboðsmanns skuldara frá árinu á undan.

Að teknu tilliti til skýrslu umboðsmanns skuldara um áætlaðan rekstrarkostnað embættisins árið 2013, álits samráðsnefndar gjaldskyldra aðila um skýrsluna og afstöðu umboðsmanns skuldara til álits, sem borist hafa í samræmi við lögin, er lagt til í frumvarpi þessu að hlutfallið af álagningarstofni sem tilgreint er í 1. mgr. 5. gr. laganna hækki úr 0,03% í 0,0343%, þ.e. hækkunin er hundraðshluti úr prósenti. Er þá miðað við að fjárheimildir umboðsmanns skuldara vegna rekstursins 2013 verði samtals 944.600 millj. kr. Enn fremur er tekið mið af áætlaðri rekstrarafkomu umboðsmanns skuldara á árinu 2012 við ákvörðun hlutfallsins, en gert er ráð fyrir rekstrartapi að fjárhæð 247.370.662 kr. Fyrir liggur, verði frumvarp þetta samþykkt, að heildargjaldtaka vegna reksturs umboðsmanns skuldara árið 2013 nemi samtals tæpum 1.192 millj. kr. miðað við að gjaldið verði eins og áður sagði 0,0343% af álagningarstofni.

Hæstv. forseti. Ég tel afar mikilvægt að Alþingi afgreiði frumvarp þetta fyrir þinghlé núna í desember þannig að gjaldtaka fyrir árið 2013 geti farið fram í samræmi við framangreint hlutfall og lög og reglur þar um. Ég legg því til að frumvarpinu verði vísað til hv. velferðarnefndar að lokinni þessari umræðu.