141. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2012.

greiðsla kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara.

498. mál
[14:30]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Ég fagna því, og það er svo sem ekkert nýtt, að við séum sammála um hversu mikilvægt er að hafa rekstrarumfang stofnana þannig að þær fari eftir fjárlögum.

Út af þessu síðasta sem hæstv. ráðherra nefndi í sambandi við Íbúðalánasjóð og opinberu lífeyrissjóðina þá vitum við að framlag þeirra til umboðsmanns skuldara á næsta ári bíður okkar til seinni tíma úrlausnar. Bæði eru opinberu lífeyrissjóðirnir með mjög háar uppsafnaðar skuldir eða skuldbindingar, um 400 milljarða eða rúmlega það, og eins vitum við af vandamálum Íbúðalánasjóðs. Þeir fjármunir sem Íbúðalánasjóður setur inn í umboðsmann skuldara kemur bara úr ríkissjóði, hvort sem það er á næsta ári eða þarnæsta ári eða aðeins seinna.

Þetta staðfestir það enn eina ferðina, sem þverpólitísk samstaða hefur verið um, að minnsta kosti í hv. fjárlaganefnd, þó að það hafi nú strandað í einum þingflokki, að breyta þarf umfanginu þannig að menn séu raunverulega á fjárlagalið, rekstrarlið, þó að þeir séu með markaða tekjustofna til þess einmitt að koma í veg fyrir þá hluti sem hér eru að gerast, þ.e. ákveðnar stofnanir draga ekki saman seglin og allar hafa ástæðu fyrir því, alveg sama hver stofnunin er. Það eru gild rök fyrir margar heilbrigðisstofnanir og aðrar stofnanir í þjóðfélaginu að draga ekki saman seglin vegna þess að verkefnin eru brýn. En í þessu tilfelli er verið að bregðast við með þessum hætti og mér þykir það mjög óeðlilegt að gjaldið skuli vera hækkað til að bregðast við rekstrarhalla fyrri ára. Það er gríðarlega mikilvægt að hver og ein stofnun hafi umfang síns rekstrar eins og gert er ráð fyrir í fjárlögum.

Ég fagna því sem hæstv. ráðherra segir. Við erum sömu skoðunar, það er svo sem ekkert nýtt. En þetta er enn ein staðfestingin á því hversu mikilvægt er að færa fjárstjórnarvaldið, sem að hluta til er farið út frá Alþingi, með því að setja hverja einustu stofnun inn á fjárlagalið þannig að stofnanirnar viti í upphafi árs hvert rekstrarumfang þeirra er og við lendum ekki í hlutum eins og hér eru að gerast.