141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[21:10]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er mér mikil ánægja að taka til máls í síðari umræðu um tillögu til þingsályktunar um rammaáætlun. Merkilegt verkefni er að lokum komið, verkefni sem skiptir miklu um samfélagsþróun okkar í bráð og lengd. Vert er að minna á að það var undir forustu Samfylkingarinnar sem þetta mál fékk nýjan kraft og nýjan þrótt, eftir að Samfylkingin settist í ríkisstjórn árið 2007. Þá var byggt á stefnumörkun Samfylkingarinnar Fagra Ísland, sem er fyrsta heildstæða stefnumörkunin um vernd og nýtingu náttúruauðlinda, um náttúru- og umhverfisvernd, og felur í sér algjörlega nýja hugsun um þær forsendur sem þurfa að liggja fyrir til að brúa þá togstreitu sem verið hefur milli nýtingarsinna og friðunarsinna um langa hríð og til að tryggja að við getum nýtt náttúruauðlindir okkar í friði og sátt við viðkvæma og dýrmæta náttúru og búið til farveg fyrir fjölbreyttari nýtingarkosti en áður.

Segja má að Fagra Ísland sé þannig sem stefna alger forsenda skynsamlegrar auðlindanýtingar. Við höfum svo mýmörg dæmi úr fortíðinni um nýtingu, um virkjanir, á ósjálfbærum forsendum þar sem menn mátu ekki til fulls raunverulegan ávinning af framkvæmdum, horfðu fyrst og fremst á stundarávinning sem oft var með gríðarlega miklum vaxtarverkjum fyrir hagkerfið, olli gríðarlegu efnahagstjóni á sama tíma og þensla jókst og jákvæð efnahagsáhrif sýndu sig. Ruðningsáhrif hafa verið regla frekar en undantekning í kjölfar stórra virkjunarframkvæmda á undanförnum áratugum. Það er mjög mikilvægt að freista þess að finna farveg fyrir friðsæla sambúð og sátt milli nýtingar og verndar til þess ekki síst að tryggja að virkjanir í framtíðinni auki á efnahagslegan stöðugleika og viðhaldi honum en kollvarpi honum ekki eins og allt of oft hefur gerst á fyrri tíð.

Eins og ég sagði var það undir forustu Samfylkingarinnar í nýrri ríkisstjórn sem þetta verkefni um rammaáætlun, sem hafði lengi verið í farvatninu, fékk nýjan byr og nýjan kraft, enda var það almennt viðurkennt af okkar hálfu að þetta væri grundvallarforsenda þeirrar sáttar sem við töldum nauðsynlegt að ná og fundum á eigin skinni að var nauðsynleg fyrir stóran jafnaðarmannaflokk að skapa farveg fyrir. Það var undir forustu ráðherra Samfylkingarinnar 2007 sem þetta verkefni komst í fullan gang, þáverandi umhverfisráðherra, Þórunnar Sveinbjarnardóttur, og þáverandi iðnaðarráðherra, Össurar Skarphéðinssonar, núverandi hæstv. utanríkisráðherra. Var komið fram með þann nauðsynlega lagagrunn sem verkefnið hefur byggt á síðan og var verkefnisstjórn undir forustu Svanfríðar Jónasdóttur sett af stað sem hefur unnið gríðarmikið og vandað verk á undanförnum árum.

Nú er tillagan loks komin hingað til þinglegrar meðferðar á nýjan leik eftir að hafa verið lögð fram á síðasta þingi og ekki náðst að afgreiðast þá. Ég bind við það miklar vonir að hún verði afgreidd nú og ég mun styðja hana. Ég gerði við meðferð málsins í þingflokki tvíþættan fyrirvara. Ég taldi ekki hafa komið fram nægjanlega skýr rök fyrir því að fella Holtavirkjun og Hvammsvirkjun úr nýtingu í biðflokk og taldi sérstaklega þörf á tvennu í því sambandi. Annars vegar skýrari vísindalegum rökum. Ég gat séð að efnisrök væru fyrir því, á grundvelli tillits til laxa- og urriðastofns í ánni, að bíða með framkvæmdir við Urriðafossvirkjun, en gat ekki séð sem leikmaður að sömu rök ættu jafnskýrt við um Holta- og Hvammsvirkjun. (Gripið fram í.) Að sjálfsögðu hef ég notið leiðsagnar utanríkisráðherrans í öllu því er lýtur að hinum vísindalegu þáttum þessa máls æ síðan.

Það sem skiptir líka máli í þessu samhengi er sú staðreynd að bæði Holta- og Hvammsvirkjun eru virkjanir sem eru fullhannaðar, eru rennslisvirkjanir í byggð með takmörkuðum umhverfisáhrifum að öðru leyti og eru þar af leiðandi virkjunarkostir sem gæti verið frekar stutt í eftir að samningar næðust við orkukaupendur. Ég taldi þess vegna að betur hefði farið á því að hafa ríkara samráð við verkalýðshreyfinguna í aðdraganda endanlegrar afgreiðslu málsins. Það skiptir máli að hafa í huga hagsmuni vinnandi fólks við aðstæður sem þær sem við búum við núna og sérstaklega þegar um er að ræða virkjanir af hóflegri stærð í byggð þar sem verulegar líkur eru á að innlent vinnuafl mundi fá störf við framkvæmdina.

Að þessu sögðu hef ég fylgst með vinnu nefndarinnar, hún liggur nú fyrir. Ég tel að vel hafi verið að verki staðið við meðferð málsins á vegum umhverfis- og samgöngunefndar og fulltrúa okkar þar. Þessi vinna öll hefur frá upphafi og allt til loka verið vönduð eins og sér stað í ítarlegu nefndaráliti frá umhverfis- og samgöngunefnd. Ég tel líka ljóst að frekari óvissa, tafir og þrætur um einstaka nýtingarkosti, verði engum til góðs. Það er mikilvægt að afgreiða málið nú og tryggja að rammaáætlun verði að veruleika sem allra fyrst þannig að hægt sé að leysa úr þeim álitamálum sem uppi eru um frekari rannsóknir á einstökum kostum sem allra fyrst.

Það er enginn valkostur að afgreiða ekki rammaáætlun, hún verður að verða að veruleika nú. Þegar málið er metið í heild sinni tel ég góð efnisrök fyrir því að afgreiða málið eins og það liggur fyrir eftir meðferð meiri hluta nefndarinnar. Ég mun styðja þetta mál í atkvæðagreiðslu.