141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[22:15]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt að 1. áfangi rammaáætlunar var settur af stað 1999 og 2. áfangi 2004. Í báðum tilvikum í ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks og í báðum tilvikum af iðnaðarráðherrum Framsóknarflokksins. Framsóknarflokkurinn og náttúruvernd hafa verið samofin frá stofnun Framsóknarflokksins og er það enn.

Það er algjörlega seinni tíma sögufölsun [Hlátur í þingsal.] sem oft hefur komið fram hjá þingmönnum Samfylkingarinnar, því miður ekki bara í þessu máli heldur allt of mörgum, að það sé eitthvað nýtt sem hafi orðið til hjá Samfylkingunni eða Vinstri grænum. Þetta er einfaldlega sú stefna sem hefur verið unnið eftir og aðlöguð að því sem skynsamlegast er á hverjum tíma. Nú erum við komin á þann punkt í tilverunni að hyggilegt er að nýta náttúruauðlindirnar skynsamlega, hvort sem er í vatnsafli eða jarðvarma. Fara varlega en vera engu að síður með nýtingarkosti til staðar til að geta staðið undir verðmætasköpun (Forseti hringir.) og atvinnusköpun svo við komumst út úr þessari kreppu.