141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[23:54]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er mjög gott að vera bjartsýnn og ég hefði haldið að það væri nú ráð að beina því til frú forseta að gera hlé á umræðunni. Það eru fjölmörg mál sem við gætum rætt í millitíðinni sem þurfa mögulega afgreiðslu fyrir áramót. Eins og menn heyra er sáttatónn í stjórnarandstöðunni í því máli. Sú sem hefir kallað fram ófriðinn, ekki bara gagnvart stjórnarandstöðunni heldur gagnvart fjölmörgum hagsmunaaðilum í samfélaginu, er ríkisstjórnin sjálf. Ég tel því að það sé mikilvægt fyrir okkur, eins og hv. þingmaður hefur talað fyrir, að gera hlé á umræðunni og að menn setjist yfir málið. Það ætti ekki að vera gríðarlega erfitt fyrir þessa tvo stjórnmálaflokka að snúa ofan af málinu í ljósi þess að á bak við tillögurnar að þessari rammaáætlun höfum við ráð frá okkar fremstu vísindamönnum á því sviði. Við getum rökstutt málið svo og þannig hef ég lagt mál mitt hér upp og hv. þingmaður líka.

Það sem mér finnst grátlegt í því er hvað þetta mál hefur allt saman dregist. Ég var að vitna í skýrslu atvinnumálanefndar Framsóknarflokksins sem var gefin út eftir áramót árið 2011 og þar vorum við að gæla við þá hugmynd að rammaáætlun yrði afgreidd þá um vorið. Nú er árið 2013 að ganga í garð og eins og ég nefndi varðandi þrjá virkjunarkosti, sem eru eiginlega fullbúnir til framkvæmda, mundu þeir skapa 2000 ársverk. Það er grátlegt að sjá að það mál hefur dregist allt of lengi í einhverjum pólitískum bitlingum og þessi mikli málaflokkur virðist vera orðinn skiptimynt hjá ríkisstjórninni. Það er kannski spurning sem ég mundi vilja beina til hv. þingmanns sem hefur tekið þátt í þessu mikla starfi á undangengnum árum. Hvað finnst henni um að sú mikla vinna sem þarna liggur að baki skuli hafa endað sem einhver skiptimynt á ríkisstjórnarborði til að framlengja líf stjórnarinnar um einhverjar vikur eða mánuði?