141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:22]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ábendinguna. Eins og hann bendir á er hér verið að útvíkka hlutverk verkefnisstjórnarinnar enn frekar. Að verkefnisstjórnin eigi að fara í einhverja heilmikla rannsóknarvinnu vegna virkjunarkosta í Þjórsá er alveg nýtt fyrir mér, því að eins og hv. þingmaður benti á hafa það hingað til verið framkvæmdaraðilar sem staðið hafa að slíkum rannsóknum. Maður veltir því fyrir sér hvað það muni kosta.

Eins og fram kemur á bls. 25 í þingsályktunartillögunni er kveðið á um að rammaáætlun eigi jafnvel að taka einnig til smærri virkjana. Maður veltir því fyrir sér hvaða áhrif það muni hafa þegar menn vilja virkja bæjarlækinn. Á verkefnisstjórnin að fara að veita einhver leyfi vegna slíkra framkvæmda?

Síðan varðandi það að Verkefnisstjórnin eigi að fara að skoða möguleika á vindorku og sjávarfallaorku dreg ég ekki úr því að það þurfi að skoða, en mér finnst að liggja þurfi fyrir hvaða kostnaður mun hljótast af því. Það væri áhugavert fyrir okkur sem höldum áfram að ræða þessi mál til hlítar, að heyra það. Vegna mikilvægis málaflokksins væri áhugavert að lesa kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins við frumvarpið og kanna hvort það stenst sem stendur í þingsályktunartillögu frá þingflokkum Vinstri grænna og Samfylkingar.

Mér finnst við þurfa að fá svör við því. Ég veit að hv. þingmaður hefur oftsinnis komið hér upp. Nú hefði verið alveg upplagt að hafa hæstv. umhverfisráðherra í salnum til þess að bregðast við þessum spurningum þannig að við fengjum dýpri skilning á því hvert verið er að stefna í þessari vinnu allri saman. Því miður (Forseti hringir.) er hæstv. ráðherra ekki í (Forseti hringir.) salnum til að svara spurningum okkar.

(Forseti (ÞBack): Forseti vill biðja hv. þingmenn hér í hliðarsal að hafa hljótt svo ræðumenn geti talað án þess að vera truflaðir.)