141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:24]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er eðli raforku að ekki er hægt að geyma hana í tíma, þ.e. maður getur ekki nýtt þá orku sem er framleidd í dag á morgun nema breyta henni í einhverja aðra orkugeyma á meðan, rafgeyma eða eitthvað slíkt. Það er einkenni hennar að það kostar viðnám og tapast ákveðið magn af raforku við það að flytja hana og því meira því lengra sem flutt er. Það er því ákveðinn hvati til að vinna orkuna við búðarvegg þannig að hún ætti að vera eitthvað ódýrari einmitt þar en til dæmis í Reykjavík, á Suðurnesjum eða annars staðar þar sem hún er þá nýtt. Þetta gæti leitt til þess að heimamenn séu í forgangi.

Hins vegar er ég á móti því að segja að þessi fjörður eða þetta hérað eigi orkuna því að það gæti þá litið illa út gagnvart því hver á orkuna sem er til dæmis notuð í Reykjavík, er það Þingvallasveit, heita vatnið sem er sennilega mesta orkuveita hér á landi? Þetta kemur inn á það sem við höfum oft rætt um, auðlindanýtingu og auðlindagjald. Ég get hins vegar alveg séð fyrir mér ef það verður tekið upp auðlindagjald á orku að héruðin nytu þess og þau njóta þess að sjálfsögðu að leggja fasteignaskatta á byggingarnar. Því hefur reyndar ekki verið sinnt nægilega vel að það sé gert en ef það er byggð virkjun í Villinganesi ætti fasteignagjaldið af þeirri virkjun í sjálfu sér að renna til sveitarfélagsins og gefa því ákveðinn styrk til að fara út í frekari framkvæmdir og laða til sín fólk, t.d. með skattafslætti. Ég sé það alveg sem lausn á þessu.