141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:30]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú gerast tíðindi. Við höfum verið að ræða hér um áhrif þessarar þingsályktunartillögu, þ.e. að færa sex rennslisvirkjanir úr nýtingarflokki yfir í biðflokk og áhrif þess almennt á fjárfestingar í íslensku samfélagi og á efnahagslífið. Nú hefur komið í ljós og ég ætla að fjalla um það í ræðu minni hér á eftir að Alþýðusamband Íslands hefur sagt sig frá samskiptum við ríkisstjórnina það sem eftir er af þessu kjörtímabili. Í dag segir Gylfi Arnbjörnsson, með leyfi forseta:

„Það var niðurstaða okkar á fundinum í dag að við ættum ekkert vantalað við þessa ríkisstjórn. Við munum við endurskoðun samninganna ekki freista þess að ræða við ríkisstjórnina. Við metum það enda svo að það þjóni engum tilgangi. Við erum búnir að reyna það til þrautar. Tími ríkisstjórnarinnar kom og fór.

Við teljum í reynd að þessi samningur sé ónýtur.“

Í framhaldi segir hann, með leyfi forseta:

„Umræða um fyrirkomulag efnahagsmála í framtíðinni, gengi, fjárfestingar og efnahagsstefnu verður að bíða nýrrar ríkisstjórnar. Það verður ekki frekar rætt við þessa ríkisstjórn.“

Hv. stjórnarliðar halda því fram að við í minni hluta á þingi séum hrópandi í eyðimörkinni þegar við ræðum um áhrif þessarar þingsályktunartillögu sem snúa að því að færa sex virkjunarkosti úr nýtingarflokki yfir í bið sem mun jafnvel þýða 270 milljarða kr. minni fjárfestingu á árabilinu 2013–2016.

Nú spyr ég hv. þingmann hvort honum finnist ekki, í ljósi þess að kjarasamningar eru í fullkomnu uppnámi, að gera eigi hlé á þessari umræðu og menn setjist niður og endurskoði þessi áform.