141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[19:40]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Samanburðurinn sem hv. þingmaður fór yfir var athyglisverður, þ.e. þegar borin voru saman rök og forsendur fyrir því að færa virkjanir í Þjórsá úr nýtingarflokki í biðflokk og hins vegar áherslan á jarðhitann. Hv. þingmaður nefndi að þessar virkjanir hefðu meðal annars verið færðar milli flokka vegna varúðarsjónarmiða og benti á að sömu varúðarsjónarmið virtust ekki eiga við þegar kom að því að ákveða að jarðhitavirkjanir skyldu vera í nýtingarflokki. Þá hljótum við að spyrja: Hvað er þarna á ferðinni? Má kalla þetta hræsni? Eru þetta mistök eða er þetta kannski það sem mér heyrðist hv. þingmaður segja, og ég bið hann að leiðrétta það ef ég hef rangt eftir, að þetta væri beinlínis gert til að koma á virkjunarstoppi og koma þá að sjálfsögðu í veg fyrir að virkjanir í Þjórsá yrðu að veruleika?

Það er vitanlega búið að fara yfir það nokkuð oft að þetta eru þær virkjanir sem er líklega fljótlegast að fara í vilji menn afla hér frekari orku. Við þekkjum vatnsaflið mun betur en jarðhitann. Maður hefði einmitt haldið að varúðarsjónarmiðin ættu frekar við jarðhitann en vatnsaflið. Svo spyr maður sig hvort hálmstráið, þ.e. að færa þessar virkjanir úr nýtingarflokki í biðflokk, hafi einmitt verið þetta hugtak, (Forseti hringir.) varúðarsjónarmið.