141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[19:49]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Í ræðum mínum í dag og undanfarið um rammaáætlun hef ég komið mjög lítið að hinum efnahagslega þætti málsins. Ekki er það vegna þess að ég hafi talið að hann skipti ekki máli heldur vegna þess að málið er auðvitað svo margbrotið, svo galið og svo illa undirbúið og mótsagnakennt í sjálfu sér að ég hef orðið að fjalla um ýmsa þætti þess án þess að geta vikið að hinum efnahagslega þætti svo nokkru nemi.

Í dag gerðust hins vegar mjög mikil tíðindi, söguleg tíðindi í raun og veru, í samskiptum ríkisvaldsins við verkalýðshreyfinguna sem gera að verkum að það er algerlega óhjákvæmilegt einmitt núna á þessu kvöldi að setja rammaáætlun í það efnahagslega ljós sem henni ber. Meðal forsendna fyrir áframhaldandi kjarasamningum sem Alþýðusambandið setti var að gengisvísitala íslensku krónunnar mundi breytast þannig að gengi krónunnar mundi styrkjast. Nú er gengisvísitalan í kringum 230 en forsenda kjarasamninganna að mati ASÍ er sú að gengisvísitalan væri komin í um 190 og hefði þróast í þá átt smám saman á þessu ári. Við vitum að þarna er á milli himinn og haf. En hvað hefur það með rammaáætlun að gera?

Forseti Alþýðusambands Íslands var í útvarpsviðtali með hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, einum af höfuðábyrgðarmönnum þessa plaggs sem við ræðum hér, og lýsti nákvæmlega samspili rammaáætlunar eins og hún stendur, eins og hún var lögð fram, og gengisþróunar í landinu. Það sem forseti Alþýðusambands Íslands sýndi fram á var að gengi krónunnar hefði verið að veikjast vegna skeytingarleysis ríkisstjórnarinnar um uppbyggingu atvinnulífsins. Hægar hefði gengið við uppbyggingu atvinnulífsins og ríkisstjórnin hefði búið til alls konar stíflur á innstreymi erlends fjármagns inn í íslenskt atvinnulíf og það hefði orðið til þess að veikja íslensku krónuna. Þetta, sagði forseti Alþýðusambands Íslands, á sérstaklega við þegar kemur að rammaáætlun. Hann vakti athygli á því að rammaáætlun eins og hún var lögð fram þýðir í raun og veru virkjunarstopp í vatnsaflsvirkjunum. Það eru þær virkjanir sem búið er að rannsaka best, það eru þær virkjanir sem við þekkjum best, eru sannarlega hagkvæmastar og hægt væri að fara í undir eins.

Það sem forseti Alþýðusambands Íslands sagði okkur var að rammaáætlun sem núna er til efnislegrar meðferðar í síðari umræðu á Alþingi stuðlar í raun og sann að veikingu íslensku krónunnar. Hún er þess vegna sérstök atlaga að kjarasamningum. Hún veikir og rýrir kaupmátt íslenskra launþega og gerir það að verkum að þeir verða að reyna að ná kaupmættinum upp með öðrum hætti, með auknum launakröfum á hendur atvinnulífinu sem atvinnulífið þarf síðan því miður í einhverjum tilvikum að velta út í verðlagið. Er ekki myndin þá farin að verða býsna gamalkunnug? Mynd víxlhækkunar launa og verðlags, alveg eins og við þekkjum, eins og við festumst í og menn komust ekki út úr fyrr en verkalýðshreyfingin, atvinnulífið og Bændasamtökin tóku höndum saman og réðust gegn ríkisstjórninni fyrir rúmum 20 árum og þeim tókst að knýja fram þjóðarsáttarsamningana sem rufu þennan vítahring.

Með öðrum orðum, rammaáætlun eins og hún blasir við okkur núna, fyrst með framlagningu tillögunnar og sérstaklega eftir að meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar fór um hana sínum höndum, er í raun aðferð við að veikja gengi íslensku krónunnar. Þegar það gerist mun það leiða til þess í frekari mæli að lífskjör þjóðarinnar versna, lífskjör almennings, launþega versna, kaupmáttur verður minni. Þess vegna verðum við að skoða rammaáætlun í samhengi, ekki bara við efnahagslífið almennt heldur við kjarasamningana og stöðu þeirra núna. Og það skyldi þó ekki vera að rammaáætlun verði þess einmitt valdandi að kjarasamningum verði sagt upp, það verði ófriður á vinnumarkaði, mikil óvissa og upplausn fram undan? Það væri undarlegt ef það yrði svo, en því miður er greinilega verið að efna í slíkt með afgreiðslu rammaáætlunar verði hún á þá lund (Forseti hringir.) sem hér er lagt til.