141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[19:59]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er augljóst að það er ekki ætlun stjórnvalda á neinn hátt að reyna að liðka til fyrir kjarasamningum. Í stað þess standa stjórnvöld nú í miklu rifrildi við Alþýðusamband Íslands. Ég tek undir með hv. þingmanni: Öðruvísi mér áður brá þegar vinstri stjórn og Alþýðusambandið tala saman.

Því hefur reyndar verið haldið fram — ég hef svo sem ekki séð það staðfest neins staðar, en það er auðvelt að fá það staðfest — að verkalýðshreyfingin hefur yfirleitt náð fram sínum kjarabótum þegar það er ekki vinstri stjórn við völd, vegna þess að þá hafa þeir sjálfsagt beitt harðari aðgerðum en ella. En hvað um það. Við hljótum að hafa áhyggjur af því sem mun taka við á næstu mánuðum, ekki síst ef kjarasamningar verða lengi í uppnámi.

Svo er hitt að við þingmenn höfum varað við því og núna Alþýðusamband Íslands að þetta muni hafa veruleg áhrif og seinka efnahagsbatanum sem er svo mikilvægur fyrir okkur. Það er svo mikilvægt að við förum að sjá framkvæmdir, við förum að búa til störf og framleiða vörur og skapa meiri gjaldeyri en við gerum nú þegar. En þetta er klárlega allt á sömu bókina lært, allt gert til að seinka því.

Það er vitanlega grafalvarlegt þegar hæstv. ráðherra fer fram með þeim orðaflaumi sem mér heyrðist hann gera í þessu viðtali og ég las það uppprentað á netmiðlum núna rétt áðan þar sem hann sakar meðal annars forseta Alþýðusambandsins um lygi. Við hljótum að velta því fyrir okkur hvort þeir sem stóðu að þessari auglýsingu, það var ekki bara forseti Alþýðusambands Íslands sem birti þessa auglýsingu um verk ríkisstjórnarinnar (Gripið fram í.) heldur var stór hópur manna þar að baki, hljóti þá ekki allir að vera lygarar að sama skapi.