141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[20:38]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það ber svo vel í veiði að við erum að ræða fjárlagafrumvarpið við 3. umr. þannig að þar gætum við rætt ítarlega um hvort þetta sé í fjárlagafrumvarpinu og ef ekki hver eigi þá að greiða það, hvort það séu sveitarfélögin, virkjunaraðilar, eigendur bújarða eða aðrir. Það er góð hugmynd.

Það sem er undarlegt við þetta nefndarálit er, og við erum að ræða nefndarálitin, að þar eru nokkuð margar sérbókanir. (Gripið fram í.) Það er spurning hvað gerist ef þetta verður samþykkt. Þar eru fyrirvarar Kristjáns L. Möllers, Þórs Saaris, Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur o.s.frv. (Gripið fram í.) Það eru fyrirvarar út og suður. Maður veltir fyrir sér hvað gerist ef þetta verður samþykkt. Er þá búið að samþykkja fyrirvarana líka? Eða án fyrirvaranna? Hvað þýða þessir punktar sem hv. þingmaður las upp um að það ætti að rannsaka Þjórsá o.s.frv.? Er það innifalið í samþykkt þessarar tillögu eða eru þetta bara einhverjar ábendingar eða spurningar sem svífa svo í loftinu á eftir þegar við ættum hugsanlega að skoða þetta, eitthvað svoleiðis?

Það er ekki nógu sniðugt þegar menn samþykkja þingsályktunartillögu að það sé ekki á hreinu hverju Alþingi er að beina til ríkisstjórnar því að þingsályktun er yfirleitt ályktun Alþingis til ríkisstjórnar. Það þarf að vera á hreinu hverju Alþingi er að beina til ríkisstjórnarinnar þannig að þegar búið er að samþykkja þetta liggi fyrir að það sé eitthvað ákveðið sem á að gera. Eins og hv. þingmaður velti upp felst þá í því að bændur þurfi að fara að sækja um leyfi fyrir litlu einkarafstöðinni sinni í bæjarlæknum. Þetta finnst mér ekki nógu klárt.