141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[20:46]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður gerði hér að umtalsefni auglýsingu sem vakið hefur mikla athygli í dag og kallað fram ofsafengin viðbrögð frá hæstv. ríkisstjórn. Þarf kannski engan að undra því að ríkisstjórnin er borin þar mjög þungum sökum þó að í sjálfu sér þurfi það ekki að koma á óvart vegna þess að ríkisstjórnin hefur verið, eins og menn vita, krýnd sérstakri heimsmeistaratign af hálfu forseta Alþýðusambands Íslands fyrir svikin loforð.

Hv. þingmaður vísaði til eins atriðis í þeim lista sem birtist í auglýsingunni sem lýtur sérstaklega að rammaáætluninni. Þá vaknar spurningin: Hvaða erindi á það inn í umræðu Alþýðusambandsins í tengslum við kjarasamningana? Það sem býr augljóslega þar að baki og forseti Alþýðusambandsins útlistaði mjög vel í útvarpinu fyrr í dag er að það er beint samhengi milli stöðu gengisins, kaupmáttarþróunar almennings og þess plaggs sem við ræðum í dag sem er rammaáætlunin. Forseti Alþýðusambands Íslands útskýrði fyrir okkur útvarpshlustendum að rammaáætlun, eins og hún liggur fyrir frá hálfu hæstv. ríkisstjórnar og enn þá frekar eftir meðhöndlun meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar, mundi stuðla að veikara gengi vegna þess að hún mundi gera það að verkum að þeir raforkukostir, virkjunarkostir, sem eru arðvænlegir, mest rannsakaðir og hagkvæmastir og er þess vegna hægt að fara fljótt í, eru út af borðinu og það er það sem er svo mikilvægt þegar við setjum málið allt saman í efnahagslegt og kjaralegt samhengi.

Ég veit að hv. þingmaður hefur lengi fylgst með umræðunni og kjaramálum. Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann um það hvernig hún meti málið út frá þeim sjónarhóli, hvort ekki sé samhengið milli rammaáætlunar, kjaramála, gengisþróunar og kaupmáttar.