141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[21:20]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Birgir Ármannsson) (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það er tvennt sem ég vildi nefna hér. Í fyrsta lagi tek ég undir þá ósk hv. þingmanna Ásmundar Einars Daðasonar og Sigurðar Inga Jóhannssonar sem birtist í bréfi þeirra sem hv. þm. Ásmundur Einar Daðason gerði grein fyrir áðan. Ég held að þetta sé málefnalegt og þarft innlegg í ljósi þess að svo virðist sem kjarasamningar séu meðal annars í uppnámi vegna þessa máls.

Á hinn kantinn vildi ég staðfesta það sem hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir sagði áðan, fulltrúar samtaka á vinnumarkaði komu oftar en einu sinni fyrir umhverfis- og samgöngunefnd meðan á málsmeðferð stóð og héldu fram mjög sterkum og góðum rökum um þetta. En meiri hluti þeirrar nefndar og (Forseti hringir.) reyndar í atvinnuveganefnd líka virðist ekkert láta það á sig fá hvað heildarsamtök á vinnumarkaði, bæði atvinnuveitendamegin og launþegamegin, hafa um þetta mál að segja.