141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[22:03]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við þurfum ekkert að velkjast í vafa um það. Það kemur ágætlega fram í tilkynningu og áherslum Alþýðusambands Íslands í dag að ekki er hægt að treysta því og það mun ekki ganga eftir sem ríkisstjórnin heldur fram að gert verði.

Mér finnst hálfkaldhæðið, þegar hv. þingmaður les upp úr þessari yfirlýsingu, að heyra að kynna eigi Ísland sem áhugaverðan fjárfestingarkost fyrir erlendum aðilum. Þessir erlendu fjárfestar hafa séð í fréttir dag og munu sjá það næstu daga þegar við höldum áfram að fjalla um málið að það er heldur alls engin vissa um þann þátt á Íslandi. Það er ekki bara það sem óvissa ríkir um, það ríkir óvissa um allt annað, um skattahækkanir ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnin gengur á svig við samkomulag sem hún gerir. Og svo núna, þegar loksins hefði verið hægt að ná sátt um rammaáætlun um vernd og orkunýtingu er það líka í uppnámi vegna þess að ríkisstjórnin ákvað að fara aðra leið en lögð var til, þ.e. hún ákvað að setja pólitísk fingraför á áætlunina. Eins og fram kom í ræðu hv. þm. Marðar Árnasonar var sú ákvörðun að sjálfsögðu tekin mjög meðvitað.

Ég deili áhyggjum hv. þingmanns af framtíðinni. Ég ætla þó ekki að segja að sett verði stopp á það að nýta orkuna til að auka hér hagvöxt en það verður mikil seinkun á því. Menn tala um umframorku í raorfkukerfinu. Mér finnst það vera óábyrgar tölur sem settar hafa verið fram því að í það minnsta þeir sérfræðingar sem ég hef rætt við tala um að um 50–100 megavött séu á lausu. Það þarf að sjálfsögðu að liggja fyrir, en (Forseti hringir.) þau megavött eru fljót að fara verði byggð hér upp alvöruatvinnustarfsemi.