141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[22:13]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Ég skil nákvæmlega hugsunina á bak við hana hjá hv. þingmanni og þetta er auðvitað umhugsunarefni. Ég tel að við þurfum einmitt að mörgu leyti að endurskilgreina þessa flokka. Gagnrýni hefur komið fram á það hversu erfitt er til dæmis að stunda rannsóknir á virkjunarkostum sem eru í biðflokki og hvað þá í verndarflokki.

Ég held að hvort sem við stækkuðum hreinlega biðflokkinn eða tækjum þá stefnu væru í raun allir flokkarnir alltaf undir til endurskoðunar, endurskoðunarleiðir væru opnar, og hvort sem virkjunarkostur væri settur í nýtingarflokk eða í verndarflokk verði alltaf hægt að taka þá virkjunarkosti og endurflokka þá. Það er ekki þannig að ef virkjunarkostur væri í nýtingarflokki væri sjálfsagt að virkjað yrði þar. Miklar rannsóknir ættu eftir að fara fram, umhverfismat ætti eftir að fara fram og það gæti vel verið að í því ferli komi einmitt upp einhver rök fyrir því að setja virkjunarkostinn jafnvel niður í vernd.

Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að tækninni fleygir fram og komandi kynslóðir þurfa auðvitað að hafa þetta svigrúm til að geta tekið ákvarðanir út frá breyttum aðstæðum. Ég hef nefnt í því sambandi til dæmis línulagnir, hér voru lagðar símalínur með staurum um allar sveitir fyrir áratugum síðan. Þetta er allt komið í jörð. Ég held að við eigum eftir að sjá raflínur að mestu leyti komnar í jörð eftir nokkra áratugi. Svona breytist þetta með tímanum. Ég held að nauðsynlegt sé að menn geti út frá nýrri tækni — skáborunartæknin mun gera það að verkum að menn geta sett niður eina stöð sem inniheldur margar (Forseti hringir.) túrbínur og nær inn á kannski mörg jarðvarmasvæði með engu raski á viðkomandi svæði.