141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[23:24]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég get alveg sett mig inn í hugarheim þeirra sem eru eindregið á móti virkjunum alveg sama hvað gerist. Þeir segja bara: Við ætlum bara að sætta okkur við verri lífskjör, fólk á bara að hætta að keyra bíla o.s.frv., við skulum alltaf láta náttúruna njóta vafans. Þetta fólk sér það sem ógn þegar fara á að virkja. Ég get alveg skilið það. En að þeir skuli láta sér detta í hug að lítill hluti þjóðarinnar fari að kúga meiri hlutann og keyra fram mál í ágreiningi, það er hættulegt og það er vanmat og það skaðar málstað umhverfisverndarsinna. Þegar skipt verður um ríkisstjórn, sem væntanlega gerist fljótlega, er hættan sú að menn fari í hinar öfgarnar að virkja of mikið. Ég held því að menn séu að vinna þarna ákveðið skemmdarverk.

Auðvitað er þetta tímasóun, ágreiningur er alltaf tímasóun. Það er alltaf miklu skynsamlegra að ná niðurstöðu með farsælum hætti, spjalla við mann og annan og segja: Hvað vilt þú, ég vil þetta, getum við ekki náð samkomulagi o.s.frv. Það er miklu betra. Það hefði verið miklu betra ef hæstv. umhverfisráðherra hefði setið hér og svarað þeim spurningum sem endalaust hafa verið bornar fram í staðinn fyrir að við séum alltaf að spyrja að því sama. Kannski vill hann ekki svara, kannski getur hann það ekki, af því að hann er að brjóta ákveðna reglu. Auðvitað ættum við að vera að gera eitthvað allt annað. Þeir sem eiga börn ættu kannski að vera að kíkja aðeins framan í þau og hinir sem hafa hugmyndir og slíkt geta verið að leysa vanda heimilanna á þessum tíma eða við dagsljós.

Það yrði mjög athyglisvert ef í ljós kæmi eftir allan ágreininginn og alla umræðuna án svara að ekki væri meiri hluti fyrir þessu og menn mundu fallast á niðurstöðu verkefnisstjórnarinnar.