141. löggjafarþing — 52. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[00:07]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég er búin að sjá þetta nýjasta útspil hv. þm. Árna Páls Árnasonar. Ég fór einmitt yfir það í andsvari nú í kvöld að stuðningsmönnum þessarar tillögu fækkar mjög mikið eftir því sem líður á umræðuna. Það sýnir að ekki er um nokkurt málþóf að ræða — það er nýjasta tískuyrði ríkisstjórnarinnar, hún sakar stjórnarandstöðuna sífellt um málþóf ef við lútum ekki í gras og samþykkjum alla pappíra sem koma frá henni. Ég hef því verið að velta því fyrir mér í kvöld hvort það sé ekki bara tímaeyðsla að vera að ræða þetta og brjóta málið til mergjar, eins og við höfum verið að fara yfir. Kannski er jafnvel ekki stuðningur við þessa þingsályktunartillögu og þetta er því stór spurning.

Sem betur fer eru margir að horfa á þessa útsendingu og mér var að berast SMS. Í kjölfar ræðunnar sem ég hélt áðan, þegar ég talaði um að ASÍ hefði sagt ríkisstjórninni upp, fékk ég svohljóðandi skilaboð í símann, með leyfi forseta:

„Hermann Jónasson sagði af sér 1958 vegna þess að ríkisstjórn hans fékk ASÍ upp á móti sér.“

Þessu, virðulegi forseti, vissi ég ekki af fyrr en rétt áðan, þannig að við skulum nú sjá á hvaða hættubraut þessir aðilar eru komnir. Þetta er ákall um að ríkisstjórnin skipti um takt og fari að hlusta á þá sem hún er að vinna fyrir, fólkið í landinu. Rúmlega 100 þús. manna hreyfing er búin að gefast upp á ríkisstjórninni, eins og kemur fram í yfirlýsingu og orðum forseta ASÍ. Þeir ætla ekki að ræða aftur við ríkisstjórnina, þeir ætla ekki að reyna í fimmta sinn að semja við hana. Kjarasamningar eru lausir stuttu eftir áramótin. Hvað verður? Það er verið að setja allt í uppnám.