141. löggjafarþing — 52. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[01:24]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé nú rétt að ég biðjist velvirðingar á orðum mínum áðan, það var auðvitað ekki við hæfi að kalla þetta hreina, tæra vinstri stjórn, það er mikið grugg í þeirri stjórn og allt annað en hreint og tært í kringum hana, því miður, og þetta mál er gott dæmi um það. Hv. þingmaður talaði um að þetta væri undir yfirborðinu og það er í gruggugu vatni sem menn vinna. Því miður er þetta mál enn eitt dæmið um hrossakaup ríkisstjórnarinnar, en það er bara ansi dýrt fyrir þjóðina.

Hv. stjórnarþingmaður Kristján Möller talaði um að þessi rammaáætlun hefði einfaldlega mistekist. Hér kom hv. stjórnarþingmaður Árni Páll Árnason með mjög ákveðna yfirlýsingu á opinberum vettvangi í kvöld í kjölfar framgöngu hæstv. atvinnuvegaráðherra í fjölmiðlum sem var slík að ég man ekki eftir að hafa séð annað eins. Ég man ekki eftir að ég hafi heyrt hæstv. ráðherra segja það um forseta ASÍ að hann kunni ekki mannasiði og að hann sé að ljúga. Ekki einu sinni heldur oft. Ég man það vel. Mig brestur kannski minni, kannski hefur þetta gerst áður en ég man ekki eftir svona orðfæri. Og það er eitthvað allt annað en sú málefnalega umræða sem ég held að almenningur sé að kalla eftir. Það sem er kannski það versta við málið er ekki það að menn séu ósammála um hvort eigi að virkja eða ekki heldur að búið er að eyðileggja vinnuna, það er búið að gera það, því að um leið og rammaáætlun er orðin rammaáætlun einhverra stjórnmálaafla og henni sé hent út eða hrært í henni eftir því hvaða stjórnmálaflokkar eru við völd þá erum við búin að eyðileggja það sem unnið hefur verið að í 20 ár.