141. löggjafarþing — 52. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[01:39]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í þessari umræðu hafa ýmsir reynt að skreyta sig stolnum fjöðrum. Hv. þm. Árni Páll Árnason fór til dæmis mikinn í ræðu sem hann hélt hér fyrir tveimur kvöldum án þess að ég næði neinu heillegu út úr því. Það segi ég ekki síst í ljósi ummæla hans í kvöld á Facebook, hann kom alla vega ekki inn á það. Ég fór í andsvar við hann og spurði hann um efnahagsstefnuna, kannski hann hafi séð ljósið í kjölfar yfirlýsinga ASÍ og viðbragða ríkisstjórnarinnar við þeim.

Það er rétt, sem kom fram hjá þingmanninum, að um þetta ferli hefur ríkt sátt en það var sett af stað af ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Ég held það hafi komið í hlut iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins, bæði fyrsti áfanginn árið 1999 og eins 2004, að setja verkefnið í gang. Ég get alla vega fullyrt að við framsóknarmenn fellum okkur mjög vel við þessa hugmyndafræði þó að við gerum okkur vel grein fyrir því að einstakir þingmenn eða einstakir áhugamenn um virkjun eða vernd verði ekki í öllum tilvikum 100% sáttir. Enda snýst þessi vinna um að ná sem breiðastri sátt, ekki að allir verði sáttir.

Öfgar ala af sér öfgar, það þekkjum við og það er það sem ég óttast að muni gerast. Þetta fordæmi, sem gengur mjög langt í eina átt, gæti kallað á bylgju í hina áttina. Ég hef alltaf verið að vonast eftir því að samfélagið hætti að slá eins og pendúll út í öfgarnar og fari að dingla rólega á miðjunni, þess vegna er ég í Framsóknarflokknum. Ég hef alltaf gælt við það af því að mér finnst það langsamlega skynsamlegast. En á þessu kjörtímabili höfum við ekki séð það gerast. Pendúllinn hefur farið eins langt til vinstri og hægt er, því miður, út í öfgarnar.