141. löggjafarþing — 52. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[02:00]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi Norðlingaöldu og það svæði er rétt að þær hugmyndir hafa tekið miklum breytingum og ég held að þær hafi allar verið til bóta. Sú tillaga sem liggur nú fyrir er á margan hátt skynsamleg, tekur mikið tillit til umhverfislegra þátta og er, eins og kom fram hjá hv. þingmanni, talin vera sú þjóðhagslega hagkvæmasta.

Í skoðanakönnun hjá verkefnisstjórninni fór þessi kostur þannig að sex vildu setja hann í nýtingarflokk, enginn í biðflokk og sex í verndarflokk. Það var eftir að hæstv. ríkisstjórn hafði skipt út einum nefndarmanni til að tryggja að það væri rétt slagsíða á atkvæðagreiðslunni, það var gert eftir skoðanakönnunina. Það má því leiða líkur að því að annars hefði atkvæðagreiðslan farið 7:0:5, það er spurning hvort hún hefði ekki farið þannig, sjö hefðu greitt atkvæði með nýtingarflokknum. Við sjáum auðvitað að þótt vissulega sé reynt að setja upp eitthvert faglegt mat veltur útkoman oft og tíðum á ákvörðun þeirra sem að koma.

Ég hef eftir viðræður við heimamenn, til að mynda sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps sem hefur ítrekað ályktað um að þennan kost beri að skoða, talið að það hefði verið skynsamlegt að hafa þennan kost inni. Ég hef þó áður sagt að það ætti að reyna að ná sem víðtækastri sátt um þá tillögu sem kom frá verkefnisstjórninni og í því ljósi ætti ekki að vera að fetta fingur út í hana. Ég tel þó að við séum þarna að henda mjög góðum kosti og að hann hafi ekki þau slæmu áhrif sem fyrstu hugmyndirnar um hann gáfu til kynna. Ég held að Kvíslárveita sjö hafi í raun og veru gert þann usla á þessu svæði sem menn hafa talað um að þessi kostur mundi gera, en hann gerir það ekki.

Það hafa verið uppi hugmyndir um að stækka þarna svæðið til að taka yfir Norðlingaölduveituna en um þær er ekki samstaða meðal heimamanna. Menn hræðast hvernig þróunin hefur orðið í kringum (Forseti hringir.) Vatnajökulsþjóðgarð og þó að menn vilji gjarnan stækka friðlýsta svæðið, gera það öruggara og setja meiri fjármuni í það er ekki samstaða um að fara þá leið sem hæstv. umhverfisráðherra og ríkisstjórn hafa stefnt að.