141. löggjafarþing — 52. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[02:05]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einfaldlega þannig að á Suðurlandi hafa byggingargeirinn og verktakageirinn, sem hefur mikið verið í stórframkvæmdum eins og virkjunum og öðru slíku, verið gríðarlega öflugir og þeir eru auðvitað hrundir og það er ekkert að gera. Menn hafa aldrei horft fram á eins alvarlegan vetur eins og nú á þessu hausti, aldrei. Slæmt var það í fyrra og hittiðfyrra en það er langverst í ár, það er allt stopp. Það eru 200–300 manns við vinnu á Búðarhálsi. Því verkefni lýkur væntanlega á vormánuðum. Annars er ekkert.

Hæstv. atvinnuvegaráðherra fullyrti hér í dag að það væri gríðarleg umframorka til í núverandi kerfi og þar af leiðandi þyrfti væntanlega ekkert að virkja. Er þá ekki komið að því að velta fyrir sér hvort ekki sé eitthvað að þeirri stefnu sem ríkisstjórnin hefur beint að Landsvirkjun, um að hafa orkuverð það hátt að ekki sé hægt að selja það? Það er alltaf sagt að 20–30 góðir fjárfestingarkostir séu í gangi, en það hefur ekki verið selt eitt einasta megavatt til nokkurra skapaðra hluta.

Á Suðurlandi hafa menn mjög breiða sýn á það hvernig megi efla atvinnulífið og gera það fjölbreytt. Menn hafa til dæmis sagt: Við viljum að orkan sem verður til á okkar svæði — það er mjög lítil prósenta, orkan fer nánast öll á suðvesturhornið eða upp í Grundartanga — verði nýtt í heimabyggð, til að mynda fyrir gagnaver eða eitthvað slíkt. Við höfum lagt ríka áherslu á það og sá sem hér stendur að við gætum gert enn meira úr grænu stóriðjunni, garðyrkjunni, en við gerum í dag ef hún byggi við eins góð skilyrði og hægt er varðandi dreifingarkostnað og til kaupa á rafmagni á skikkanlegu verði. Væri það nú ekki skynsamleg atvinnuuppbygging að nýta endurnýjanlega orku að framleiða vörur, jafnvel til útflutnings? Auðvitað væri það skynsamlegt. Væri ekki skynsamlegt að leggja rafmagnskapla til Vestmannaeyja og eyða út öllum dísiltækjum í fiskvinnslunni? (Forseti hringir.) Það er gríðarlega þjóðhagslega hagkvæmt. Til þess þarf að virkja, til þess þarf að hafa jákvæða sýn á að vilja nýta (Forseti hringir.) auðlindirnar til atvinnusköpunar og verðmætasköpunar, en það hefur þessi ríkisstjórn ekki.