141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[19:07]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Auðvitað eru mjög skiptar skoðanir um þetta efni meðal þingmanna eins og meðal þjóðarinnar. Það er til fólk sem virkilega vill ekki virkja neitt meira. Þegar maður spyr hvar eigi að framleiða álið þá svarar það: Við skulum ekkert nota ál meira. Þegar maður segir að það sé nú notað í bíla og annað slíkt, þá segir það: Við skulum hætta að nota bíla. Það á sem sagt að fara niður með lífskjörin vegna þess að þetta fólk vill ekki ganga á náttúruna. Ég hef alltaf ráðlagt þessu fólki að fara upp á Esjuna og kíkja yfir Reykjavík, það er búið að breyta náttúrunni mjög mikið í Reykjavík og skemma og hún er orðin gjörsamlega óþekkjanleg frá því sem var. Mannkynið þarf alltaf ákveðið pláss til að lifa, byggja hús, leggja vegi og hafa sína virkni, það er alltaf á kostnað náttúrunnar. Það er bara þannig. Nú getur maður valið hvað við viljum hafa lífskjörin góð og hvað við ætlum að ganga mikið á náttúruna. Þetta er eiginlega spurning um það.

Svo koma aðrar þjóðir sem hafa miklu lakari lífskjör og krefjast þess að fá svipuð lífskjör og við. Þær segja: Þið eruð búin að menga í 100 ár, nú er komið að okkur. En þetta er einn hnöttur og þess vegna þurfa menn alls staðar að gæta sín. Menn eiga eftir að koma hingað og segja: Þið eruð með svo hreina orku, þið skuluð nota hana til að minnka álagið sem veldur hitnun jarðar.

Þetta er það sem ég óttast hálfpartinn til framtíðar. Nú getur vel verið að þetta gerist ekki, en ég hefði gjarnan viljað heyra sjónarmið hæstv. umhverfisráðherra sem þarf að standa hérna og segja við erlend umhverfisverndarsamtök: Íslendingar ætla sko ekkert að fara að virkja, þeim dettur það ekki í hug. Þeir eru búnir að gera rammaáætlun og ætla ekkert að virkja meira. Þá verður hann spurður: Hvernig ætlar þú að koma í veg fyrir hitnun jarðar? Hann svarar: Þið sjáið bara um það.