141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

barnalög.

476. mál
[20:36]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir í fjarveru innanríkisráðherra frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 61/2012, um breytingu á barnalögum. Þetta mundi, þér að segja, virðulegi forseti, vera á þskj. 614, mál nr. 476.

Í frumvarpinu eru lagðar til tvenns konar breytingar. Annars vegar er lagt til að gildistöku laganna verði frestað til 1. júlí 2013. Hins vegar er lagt til að gerðar verði tilteknar breytingar sem í raun varða innra samræmi laganna og lúta að því að tiltekin ákvæði þeirra verði ekki aðeins látin ná til forsjármála heldur einnig mála er varða breytingu eða breytingar á lögheimili barns og aðfararmála.

Lög nr 61/2012 voru samþykkt í júní sl. og eiga að öðlast gildi 1. janúar nk. Innleiðing laganna krefst mikils undirbúnings sem nú stendur yfir. Meðal þess sem þarf að ljúka áður en lögin öðlast gildi er að ganga frá ráðningu nýrra starfsmanna til sýslumanna eða eftir atvikum koma á öðru fyrirkomulagi sem tryggir aðgang að þeim sérfræðingum sem gert er ráð fyrir að muni starfa samkvæmt lögunum. Að þessum atriðum og öðrum er nú unnið í nánu samstarfi ráðuneytisins og sýslumanna. Hér þarf að vanda vel til verka svo að innleiðing laganna takist vel og ný ákvæði skili tilætluðum árangri í þágu hagsmuna barnsins.

Nú er orðið ljóst að á fjárlögum næsta árs er gert ráð fyrir 30 millj. kr. í fjárveitingu til innleiðingar laganna og því ber að fagna. Þar með er tryggt að fjárveiting er til staðar til að tryggja þá þjónustu sem lögin bjóða um hálfs árs skeið. Með hliðsjón af framansögðu er lagt til að gildistöku laganna verði frestað til 1. júlí 2013. Lög nr. 61/2012 eru ekki samhljóða frumvarpi því sem ég lagði fyrir Alþingi — hér er talað fyrir hönd innanríkisráðherra — á sínum tíma, því frumvarpið tók breytingum við meðferð þess á Alþingi. Þannig var meðal annars samþykkt að dómurum yrði veitt heimild til þess að dæma hjá hvoru foreldra sinna barn ætti að eiga lögheimili og samþykkt að hafa áfram heimild í barnalögum til þess að knýja fram umgengni með aðför.

Þar sem fyrrgreindar heimildir var ekki að finna í frumvarpinu þegar það var lagt fyrir Alþingi var eðli máls samkvæmt ekki heldur gert ráð fyrir því að ný ákvæði um ráðgjöf og sáttameðferð tækju til lögheimilismála eða að dómari gæti dæmt um meðlag og umgengni í slíkum málum. Þá var ekki vikið sérstaklega að lögheimilismálum í ákvæði um til hvaða sjónarmiða dómari eigi að líta við úrlausn máls eða í tengslum við skyldu dómara til að senda Þjóðskrá upplýsingar um niðurstöðu máls.

Þegar frumvarpinu var breytt í meðförum þingsins og dómurum heimilað að dæma í sérstökum lögheimilismálum var fyrrgreindum ákvæðum ekki breytt samhliða. Sömu sjónarmið hljóta á hinn bóginn að eiga við í lögheimilismálum og forsjármálum. Því er nauðsynlegt að leggja til breytingar á lögunum þannig að fyrrgreind ákvæði taki einnig til lögheimilismála en ekki aðeins forsjármála. Þetta gildir einnig að breyttu breytanda um sáttameðferð vegna mála í tengslum við aðför. Mikilvægt er að ný ákvæði um skyldubundna sáttameðferð taki til aðfararmála og er í frumvarpinu lagt til að svo verði. Greinum 1–3 í frumvarpinu, sem lúta að fyrrgreindum atriðum, er því samkvæmt framansögðu ætlað að tryggja innra samræmi laganna.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir efni frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. velferðarnefndar.