141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:25]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Út af því sem hv. þingmaður spyr um blasir við í nefndaráliti meiri hlutans sem snýr að varúðarsjónarmiðum gagnvart laxastofnunum í neðri hluta Þjórsár — ég á ofboðslega erfitt með að festa fingurinn á það við þessar tvær efri virkjanir í neðri hluta Þjórsár. Það kom líka í ljós í svari hæstv. ráðherra áðan undir liðnum um óundirbúnar fyrirspurnir þar sem var sagt: Jú, þetta á fyrst og fremst við um Urriðafossvirkjun, en almenn varúðarsjónarmið eiga við um hinar. Þá er það hárrétt sem hv. þingmaður bendir á, þegar hver og einn fer að túlka það með sínum hætti eru skoðanirnar jafnmargar og þeir sem fjalla um þær. Ég staldra við þetta. Þetta slær mig einhvern veginn þannig, ég held því ekki fram að það sé þannig, að tveir hæstv. ráðherrar leggja fram þessa þingsályktunartillögu, síðan fer hún til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og það virkar þannig á mig að það hafi verið búið að múlbinda nefndina, það mætti engu breyta í ferlinu

Af hverju segi ég þetta? Jú, vegna þess að mér finnst röksemdafærsla hv. stjórnarliða meiri hlutans vera mun sterkari þegar kemur að verndinni eða að fara varlega í því sem snýr að háhitasvæðunum. Það er náttúrlega ekki hægt að svara með þeim hætti þó að Orkuveita Reykjavíkur sé búin að setja þetta vegna fjárhagsörðugleika og þeirra hluta sem hafa komið upp á Hellisheiði, þess vegna setji Orkuveitan það í biðflokk. Hér er pósitíft ákvæði og virkjunin er í nýtingarflokki í nefndaráliti umhverfis- og samgöngunefndar þannig að þetta eru ekki haldbær rök. Mér finnst þetta mjög sérkennilegt og ég hef ekki fengið svör við því af hverju þetta er svona. Það gefur augaleið að við erum annars vegar að tala um varúðarsjónarmið í sambandi við laxastofna, sem eru mjög mikið rannsakaðir og miklar mótvægisaðgerðir gagnvart þessum virkjunum í neðri hluta Þjórsár, en aftur á móti (Forseti hringir.) þegar við sjáum öll þau varúðarsjónarmið sem snúa að háhitavirkjunum er bara ekki „common sense“ í þessu.