141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:30]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel þetta mjög áhugaverða ábendingu hjá hv. þingmanni. Það hefur komið í ljós að háhitavirkjanirnar eru með miklu meiri óvissu hvað varðar nýtingu, kostnað og það sem snýr að þeim hlutum, bæði efnahagslega og umhverfislega. Þetta er að mínu viti mjög skynsamleg tillaga til að bregðast við ef menn fara af stað í þessa vegferð, að beina allri orkuvinnslunni eða virkjunarkostunum inn á þessar háhitavirkjanir. Ég held að það sé bara mjög skynsamlegt að tryggja að það fari ekki úr opinberri eigu. Óvissan er miklu meiri þarna en í vatnsaflinu og við vitum miklu meira um það. Þetta er líka tvíbent sem snýr að þessum virkjunarkostum.

Mín skoðun er alveg klár, ég tel að við ættum að fara hægar í háhitavirkjanirnar og nýta til að byrja með þessa tvo kosti í neðri hluta Þjórsár, Holta- og Hvammsvirkjun. Ég hefði talið það skynsamlegra og hugsanlega væru meiri líkur á að ná þverpólitískri sátt um málið ef menn færu í þá vegferð. Það er því miður ekki reyndin og þetta er þingsályktunartillaga hæstv. ráðherra sem við erum að fjalla um hérna.

Eins og ég sagði áðan virkar þetta á mig eins og það sé búið að múlbinda þetta algjörlega, að þetta sé þessi ákveðna röðun sem hæstv. ráðherrar lögðu fram á sínum tíma og að við henni megi ekki hrófla. Það sést best á því að lesa rökstuðning í meirihlutaálitinu. Hann er ítarlegur og ég var mjög hugsi eftir að ég fór yfir ábendingarnar, klárlega réttar ábendingar, sem snúa að þeim vandamálum sem hafa þegar komið fram og óvissu sem ríkir um það að fara inn á háhitasvæðin í ríkari mæli. Ég næ ekki alveg samhenginu í þessari röðun.