141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:55]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Að sjálfsögðu vil ég að þessi umræða sé málefnaleg og menn takist á um þau grundvallarsjónarmið sem hér eru uppi. Það kann vel að vera að á einhverjum tímapunkti hafi ég eins og ýmsir aðrir farið fullóvarlega í málflutningi en þó ekki í þessum ræðustól. Mér finnst eðlilegt að við tökumst á um það.

Ég tel að öll þessi sjónarmið séu löngu komin fram í umræðunni á Alþingi og það sé búið að hamra á þeim allítarlega. Meira að segja ég er farinn að átta mig á því hvað það er nákvæmlega sem hv. þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks eru að gagnrýna vegna þess að ég er búinn að hlusta á mjög margar ræður þeirra um nákvæmlega þetta atriði. Ég er ekki sammála þeim um allt, en ég skil alveg sum viðhorf þeirra alveg eins og ég skil líka mjög vel mörg viðhorf sem koma fram í fyrirvörum ýmissa stjórnarþingmanna sem fylgja nefndarálitinu. Ég er sammála sumu af því sem þar kom fram. Ég tel bara að ríkustu hagsmunirnir séu þeir að samþykkja rammaáætlun eins og hún liggur fyrir þótt ég hefði persónulega kosið að ýmislegt þar væri öðruvísi.

Ef ég hefði þurft að vega og meta og staðið frammi fyrir því að velja milli Þjórsár og Reykjanessins eins og hefur stundum komið upp í umræðunni kann vel að vera að ég hefði haft aðra skoðun á því en birtist nákvæmlega í þessari tillögu. Ég tel þó mjög ríka hagsmuni í því að fá þessa tillögu samþykkta. Varðandi það að tillagan sé bara til skamms tíma af því að það sé ekki fullkomin sátt um hana, ja, það verður kannski aldrei fullkomin sátt um svona áætlun, það verða ólík sjónarmið uppi og jafnvel þó að það verði nýr meiri hluti eftir næstu kosningar, ef svo illa fer, og menn hafa önnur sjónarmið í þessu verður samt að fylgja vinnulaginu og þeirri umgjörð sem lögin setja. (Forseti hringir.) Auðvitað verður þessi áætlun endurskoðuð eins og lög gera ráð fyrir og menn verða að minnsta kosti að gefa þessu þann líftíma sem eðlilegur er (Forseti hringir.) í því efni.