141. löggjafarþing — 58. fundur,  20. des. 2012.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum og tollalög.

272. mál
[16:07]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég styð þetta frumvarp eins og það er lagt fram með þeirri breytingartillögu sem nefndin komst að niðurstöðu um. Ég tel að þar sé verið að koma skynsamlegum ramma í kringum innflutning á landbúnaðarvörum með þeim aðferðum sem við leggjum upp með. Verið er að bregðast við álitum umboðsmanns Alþingis og héraðsdóms sem hafa fallið í þessa veru, sem hafa gert það að verkum að nauðsynlegt er að gera þær breytingar, en tilefni þeirra álita var sú breyting sem gerð var á sínum tíma varðandi innflutning á landbúnaðarvörum sem að mínu mati var nú ekki góð.

Ég vil hins vegar segja að við þrír hv. þingmenn í nefndinni, hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson og hv. þm. Jón Gunnarsson auk mín, höfum flutt breytingartillögur sem lúta að því að leggja af svokallaða verðtilfærslu og verðmiðlunargjöld sem öll rök standa til auðvitað að gert sé með sama hætti og lagt er til í þessu frumvarpi að leggja niður fóðursjóð.

Við teljum að skynsamlegast væri að ákveða bæði þessi mál á sama tíma en við óskum eftir því að þessar breytingartillögur verði kallaðar aftur til 3. umr.