141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[10:35]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Hér er á ferðinni vanbúið mál. Þannig er búið um hnútana að heimildir fyrir fjármálaráðherra eru galopnar án þess að á því séu nokkrar takmarkanir yfir höfuð. Það liggur fyrir að afstaða Seðlabankans til þessa frumvarps er neikvæð og er vísað til þess að efasemdir eru uppi um framlagningu og staðfestingu á þessu máli í umsögn Seðlabankans vegna þeirra áhrifa sem sala á eignarhlutum í fjármálafyrirtækjum kunna að hafa á stöðu þjóðarbúsins, gengi krónunnar og gjaldeyrisforða. Síðast en ekki síst kom fram í morgun í fjárlaganefnd ábending frá meiri hluta hennar um að það ætti eftir að ljúka störfum hjá rannsóknarnefnd þeirri sem skipuð var til að rannsaka einkavæðingu þriggja banka á tímabilinu 1998–2003 og viðbúið sé að fram komi tillögur til breytinga á þeim lögum sem (Forseti hringir.) hér er ætlunin að staðfesta.