141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

barnalög.

476. mál
[20:53]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U):

Frú forseti. Hér greiðum við atkvæði um tillögu okkar Eyglóar Harðardóttur og Unnar Brár Konráðsdóttur um að 4. gr. frumvarpsins falli brott og þar með verði horfið frá því að fresta gildistöku laga sem við samþykktum í júní sl.

Við samþykktum í júní 2012 mjög merkilegar lagabreytingar á barnalögum. Þær fela í sér miklar réttarfarsbreytingar sem almenningur í þessu landi, fólk sem á jafnvel í erfiðum forræðismálum, treystir á að taki gildi þann dag sem við sögðum að þær tækju gildi. Við eigum ekki að hringla með slíkar dagsetningar nema verulega traust rök séu fyrir því.

Þetta frumvarp kom seint inn í þingið og í frekar takmarkaðri yfirferð velferðarnefndar hafa ekki komið fram sterk rök fyrir því að við eigum að fresta þessari gildistöku. Það er vel hægt að bjóða formlega sáttameðferð, það er þegar verið að því, (Forseti hringir.) og hvorki himinn né jörð hrynur 1. janúar 2013 þótt þetta taki gildi.