141. löggjafarþing — 64. fundur,  14. jan. 2013.

olíuleit á Drekasvæðinu.

[15:17]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Svar mitt við því hvort of seint sé að taka umræðuna er að það er aldrei of seint að taka umræðu um nokkurn skapaðan hlut, ekki síst þegar um er að ræða stórmál á borð við hvert við stefnum í orkuvinnslu og orkunýtingu til framtíðar litið. En eins og fram kom, að ég held í sama viðtali og hv. þingmaður vitnaði til, þá höfum við í flokki mínum, Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, tekið þátt í þeim lagabreytingum sem hafa verið gerðar á þessu kjörtímabili á skattalegri umgjörð þessara leyfa og alls staðar í þeim breytingum hefur komið fram í greinargerðum að gæta skuli ýtrustu varúðarsjónarmiða út frá umhverfisþáttum og öðrum þáttum þegar kemur að þessu máli.

Ástæða þess að ég ræddi þetta við þann fjölmiðil sem hv. þingmaður vitnaði til er að mér finnst mjög eðlilegt, ef menn sjá núna fram á að olíuvinnsla kunni að vera raunhæfur kostur fyrir Íslendinga til lengri tíma litið, að efna í auknum mæli til opinnar umræðu í samfélaginu, einnig hvað varðar hagsmuni okkar sem fiskveiðiþjóðar því að það skiptir auðvitað miklu máli að við skoðum þau sjónarmið, og þó að við höfum slegið þá fyrirvara að ýtrustu varúðarsjónarmiða skuli gætt getur málefnið hins vegar alltaf verið viðkvæmt. Við þekkjum auðvitað umræðuna í Noregi sem hefur verið svipuð um Lófóten þar sem eru gjöful fiskveiðimið.

Ég tel hins vegar, samhliða því að við fylgjumst með hvernig þeim loftslagsmarkmiðum sem hafa verið sett fram á alþjóðavettvangi reiðir af, fulla ástæðu til þess að við séum með stefnu okkar í stöðugri endurskoðun og endurmati. Það er mín skoðun og tel ekki að nein ósamkvæmni felist í því mati.