141. löggjafarþing — 64. fundur,  14. jan. 2013.

hlutverk ofanflóðasjóðs.

285. mál
[16:12]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Það má til sanns vegar færa að endurskoðun sé í raun hafin. Segja má um öll verkefni sem eru brýn og hafa mikla samfélagslega skírskotun, ég tala nú ekki um þegar um er að ræða ráðstöfun almannafjár, að endurskoðun fer fram um leið og verkefnið byrjar vegna þess að það þarf auðvitað að meta eftir því sem verkefninu vindur fram hvernig því reiðir af og hvernig það gengur. Í þessu verkefni skiptir gríðarlega miklu máli að fyrir hendi sé grundvallartraust milli þess almennings sem reiðir fram féð og þess sama almennings sem nýtur öryggisins og svo þeirra stjórnvalda sem hafa almannavarnasjónarmið að leiðarljósi við ráðstöfun þess fjár sem þar fellur til.

Ég leyfi mér þá að taka undir með hv. þingmanni að endurskoðunin sé í raun og veru hafin, hún stendur yfir meðal annars með þeirri öflugu umræðu sem á sér stað hér í þingsal.