141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

framkvæmdaáætlun í barnavernd til 2014.

458. mál
[11:46]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður bendir á að þessi þingsályktunartillaga kemur frekar seint fram. Að vísu hefur það einkennt mál að jafnvel þó að þau eigi að koma strax eftir kosningar þá hefst vinnan fyrst eftir kosningar, í þessu tilfelli erum við að tala um sveitarstjórnarkosningar. Ég tek undir það með hv. þingmanni að auðvitað verðum við að temja okkur þau vinnubrögð að tillögur komi fram fljótlega eftir sveitarstjórnarkosningar, strax eða á fyrsta þingi, þannig að þær séu til fjögurra ára en það hefur ekki náðst að þessu sinni og ber að harma það.

Varðandi kostnaðinn þá fylgir sérstök kostnaðaráætlun ekki þingsályktunartillögum í raunveruleikanum frekar en krafa er um, þær eru að vísu kostnaðarmetnar í ráðuneytinu. Þetta hefur ekki verið reiknað í smáatriðum en reiknað er með töluverðum tilfærslum á milli verkefna innan Barnaverndarstofu — eins og kemur fram í tillögunni þá hafa áherslur verið að breytast yfir í það að þjónusta krakka meira heima frekar en að vera með þau á meðferðarheimilum og sú skoðun er í gangi þessar vikurnar að vera með tilfærslur þar á milli útgjaldaliða.

Varðandi Barnahús þá er það svolítið merkilegt því að, eins og kemur fram í þingsályktunartillögunni, þetta fyrirkomulag er orðið þekkt um allan heim og í rauninni er verið að vinna að því að koma því á víðar, bæði hefur það verið gert á Norðurlöndunum og síðan er verið að koma því á annars staðar í Evrópu. Ég hef ekki nýjustu upplýsingar um samskipti á milli dómstóla og Barnahúss þannig að ég verð að fá tækifæri til að svara því betur síðar og vonandi kemur það fram í starfi velferðarnefndar þegar hún fjallar um málið. Þarna voru töluverðir hnökrar á í byrjun en þetta hefur ekki verið umkvörtunarefni til velferðarráðuneytisins frá því að ég kom inn í ráðuneytið.