141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

velferðarstefna -- heilbrigðisáætlun til ársins 2020.

470. mál
[12:28]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Maður hefði mátt búast við að hv. þingmaður sem hér talaði væri að minnsta kosti búinn að lesa plaggið sem við erum að fjalla um. Tímasett áætlun fylgir með í greinargerðinni, hver er ábyrgðaraðili og sundurliðun á hverju atriði fyrir sig þar sem er skilgreint nákvæmlega hver ber ábyrgð, hver er framkvæmdaraðili, hverjir eru samstarfsaðilar og á hvaða tímabili eigi að vinna að verkinu.

Það er sorglegt að hlusta á ræðu fyrrverandi heilbrigðisráðherra þar sem útgangspunkturinn er ítrekað sá sami, að hafi hann ekki gert það hefur það ekki gerst. Ég ætla ekkert að fara yfir þau atriði, svara því eða fara að rífast um hvort það eru tengsl á milli félagslegs umhverfis, jöfnuðar og heilsu. Þar er bara hægt að vísa í Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina sem fjallar um þetta ár eftir ár. Það kemur hér inn í skýrsluna.

Ég held að það sé líka óvirðing við öll þau hundruð aðila sem komu að því að semja þessa áætlun. Hún hefur að vísu tekið tíma og það er kannski mismunurinn, þarna er leitt fram fullt af fólki sem vinnur forsendurnar, fer yfir þetta ítrekað með faghópum, fjölmörgum aðilum sem hafa komið að þessu og unnið þessa tillögu þannig að það dæmir sig sjálft að tala um að hér sé um að ræða einhverja sýndarpappíra. Það er auðvitað alveg ljóst að það er verið að endurtaka og vinna með sömu hlutina ár eftir ár. Við getum tekið heilsustefnuna sem var til. Sá tími rann út. Það er verið að endurvinna það því að þetta er viðfangsefni sem við þurfum að glíma við að staðaldri.