141. löggjafarþing — 70. fundur,  24. jan. 2013.

rannsókn samgönguslysa.

131. mál
[11:41]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þetta er eiginlega alveg ómögulegt mál. Hérna er verið að steypa saman rannsóknarnefndum samgönguslysa. Rannsóknarnefnd flugslysa varar við þessu sem og rannsóknarnefnd sjóslysa, rannsóknarnefnd umferðarslysa, samtök aðila í sjávarútvegi og landflutningum, allir sem eiga við að búa vara við þessu.

Það er ekki faglegur ávinningur af þessari sameiningu, það kemur skýrt fram þegar við lesum gögn málsins. Það er sannarlega ekki fjárhagslegur ávinningur af henni en engu að síður er málið komið þetta langt. Þessi mál voru rædd ítarlega hér við 2. umr. og bent á alla þá miklu vankanta sem eru á þeim. Formaður nefndarinnar sem hefur þetta mál til umfjöllunar, formaður umhverfis- og samgöngunefndar, hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson, tók vel í að þetta mál kæmi hins vegar til meðhöndlunar milli 2. og 3. umr. Í trausti þess að það muni leiða til þess að menn hverfi frá hugmyndum um sameiningu þessara nefnda munum við þingmenn Sjálfstæðisflokksins sitja hjá, en við sitjum hjá að þessu sinni í trausti þess að frumvarpið muni taka efnislegum breytingum í þá veru sem ég hef þegar gert grein fyrir.