141. löggjafarþing — 72. fundur,  28. jan. 2013.

stofnun þjóðhagsstofnunar.

510. mál
[16:21]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Hér hafa verið rædd hruntengd mál í dag. Það er við hæfi að halda samhenginu og ræða enn hruntengt mál. Sú fyrirspurn um stofnun þjóðhagsstofnunar sem hér er fram borin kemur fyrir þingið í þriðja sinn, hún var fyrst borin fram á næstsíðasta þingi í febrúar 2011, síðan í nóvember sama ár á síðasta þingi. Þá var rakin forsaga málsins um hina fornu Þjóðhagsstofnun 1974–2002 sem lögð var niður og varð frægt það álit eftir 2008 að það hafi átt sinn þátt í hruninu að ekki var til sjálfstæð hagstofnun, því ekki dugðu greiningardeildir bankanna sem áttu að taka við að hluta til hlutverki Þjóðhagsstofnunar og ekki dugði Seðlabankinn sem þá var undir pólitískri stjórn úr Sjálfstæðisflokknum.

Margir hafa talið að sú nýja stofnun sem hér um ræðir ætti að starfa innan vébanda Alþingis og njóta þar með sjálfstæðis á borð við Ríkisendurskoðun og umboðsmann. En hvernig sem tilhögunin væri er kjarninn í hugmyndinni sá, og kom á sínum tíma fram hjá þeim þingmanni sem nú er hæstv. forsætisráðherra, að sú stofnun væri sjálfstæð, það væri sjálfstæð stofnun þótt hún sinnti verkefnum á vegum þingsins, ríkisins og jafnvel sveitarfélaganna.

Í þessu þingskjali sem fyrirspurnin er geymd á er vitnað til þingsályktunarinnar um viðbrögð Alþingis við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis 2010 sem ég gluggaði í áðan og er merkilegur lestur. Þar segir m.a., með leyfi forseta „að eftirlitsstofnanir hafi brugðist“. Þar er einnig ályktað að „stofnuð verði sjálfstæð ríkisstofnun sem fylgist með þjóðhagsþróun og semji þjóðhagsspá.“

Á þingskjalinu er líka vísað til yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar frá september á sama ári, þ.e. 2010, þar sem því er heitið að vinna að þessu.

Þegar síðast var rætt um málið í þingsölum hafði komið fram að hæstv. forsætisráðherra hafði óskað eftir því að sérfræðingar innan Stjórnarráðsins færu yfir málið með fulltrúum Alþingis.

Nú er einfaldlega spurt hvað hafi drifið á daga þeirra sérfræðinga og fulltrúa og hvar málið sé statt?