141. löggjafarþing — 72. fundur,  28. jan. 2013.

stofnun þjóðhagsstofnunar.

510. mál
[16:31]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég vil þakka þessa umræðu. Ég tel mjög brýnt að menn ræði það hvort hagrannsóknum sé vel fyrir komið. Ég man þá tíð að stjórnarandstæðingar þess tíma efuðust um niðurstöðu frá Þjóðhagsstofnun vegna þess að hún væri höll undir ríkið. Það sem skiptir kannski mestu máli er að menn geti treyst því að upplýsingarnar séu óháðar og að stofnunin sé sjálfstæð. Kannski fer best á því, eins og hæstv. forsætisráðherra kom inn á, að slík stofnun eigi heima undir Alþingi, bara við hliðina á nefndasviði. Þar gætu þingmenn fengið þær upplýsingar úr hagkerfinu sem þeir þyrftu nauðsynlega á að halda fyrir starf sitt og gætu treyst þeim.

Reyndar eru í dag starfandi mjög margar stofnanir hjá einstökum félögum eins og ASÍ og víðar og menn glugga í skýrslur þessara stofnana og lesa með þeim gleraugum að það eru hagsmunasamtök sem gefa þær út.