141. löggjafarþing — 77. fundur,  11. feb. 2013.

sorpbrennsla á Kirkjubæjarklaustri.

[15:13]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Það stendur sannarlega til að leysa málin þannig að sú lausn vari til lengri framtíðar. Við þurfum að halda því til haga þegar þetta er rætt hér að undanþága frá starfsleyfi í sjálfu sér er ekki nóg og mun ekki leysa Skaftárhrepp undan kröfum þeirrar reglugerðar sem er í gildi vegna þess að ráðherra er ekki heimilt að veita undanþágu frá ákvæðum reglugerðar um brennsluna, einungis frá starfsleyfi. Starfsleyfisundanþágan dugar ekki gagnvart reglugerðinni (SIJ: Breyta reglugerðinni.) þannig að þessi staða er uppi núna. Reglugerðin snerist um það að hverfa frá tilteknum tegundum sorpeyðingar sem olli hér miklum boðaföllum í samfélagsumræðunni í tengslum við Funa á sínum tíma. Ég tel að það hafi verið skynsamlegt að hverfa frá þeim leyfum á sínum tíma. Ég hvet hv. þingmann til að halda áfram sinni mikilvægu vakt í þessu máli, að halda þeim (Forseti hringir.) stjórnvöldum við efnið sem með málið fara, hér eftir sem hingað til, og vonast til að við sjáum góða lausn á málinu von bráðar.