141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[19:42]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Vestfirðingar voru almennt á sóknarmarki fram til 1990. Hvað gerðist þá? Þáverandi vinstri stjórn sem var við völd innleiddi frjálst framsal aflaheimilda. Af hverju gerði hún það? Vegna þess að fjöldi fiskvinnslustöðva og fjöldi fiskiskipa á Íslandi var einfaldlega til muna meiri en afrakstur fiskstofnanna gaf tilefni til. Þá var þetta kerfi innleitt til að útgerðin, vinnslan, gæti með sem einföldustum hætti á sínum eigin forsendum hagrætt innan greinarinnar. Allt saman leiddi það af þeirri ákvörðun sem ég gat um áðan, að íslensk þjóð varð að takmarka sóknina í afmarkaða fiskstofna. (ÓÞ: Hverjir borguðu fyrir hagræðinguna?) Allir Íslendingar borguðu fyrir hagræðinguna. Allir Íslendingar bera kostnaðinn af því að þurfa að skera niður fiskveiðiheimildir. Til að stjórna sókninni í þennan takmarkaða stofn þurfti eitthvert kerfi og það var þetta kvótakerfi sem kallað er. Það er afleiðing af þeirri ákvörðun sem Íslendingar urðu að taka upp úr 1980 um að stöðva frjálsa sókn í stofnana. Ég veit ekki hvort menn hafa ekki skilið hvað það þýðir í rauninni að í stað þess að veiða óheft megum við bara veiða 150 þús. tonn af þorski. Hvernig ætla menn að stjórna því? Á það að gerast sisvona? Á að taka það allt í gegnum kvótaþing eða eitthvað því um líkt? Það þarf að vera regla á hlutum. (ÓÞ: Það er best að markaðsmaðurinn svari því.)