141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

störf þingsins.

[15:02]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Blessunarlega ríkir nokkuð þverpólitísk sátt um mikilvægi löggæslunnar, sérstaklega almennu löggæslunnar hringinn í kringum Ísland. Það var ánægjulegt að á fjárlögum nú rétt fyrir áramótin var samþykktur 200 millj. kr. pottur óskiptur til innanríkisráðuneytisins til úthlutunar til að tryggja almennu löggæsluna um landið allt þannig að starfsemin þyrfti ekki að skerðast frekar og ekki kæmi til frekari fækkunar í fámennum liðum.

Nú berast þau ánægjulegu tíðindi að innanríkisráðuneytið hefur lokið skiptingu á þessum potti og þó að allar reiknireglur séu seldar undir gagnrýni, og ekki þekki ég til hins ýtrasta hvernig sú regla var útfærð, virðist útkoman vera mjög jákvæð. Ekki virðist því þurfa að segja upp í einstökum lögregluliðum en það er þó sagt með fyrirvara hvað varðar einstaka staði. Til dæmis er ljóst að ekki þarf að segja upp neinum lögreglumanni í lögreglunni í Árnessýslu þar sem mest hafði mætt á. Þær blikur höfðu verið á lofti að segja þyrfti upp fjórum lögreglumönnum, að stöðugildum mundi fækka úr 24 í 20. Eftir þessa skiptingu og frekari aðgerðir er ljóst að engum lögreglumanni þarf að segja upp þar á þessu ári. Það er mjög ánægjulegt að því var afstýrt að frekar fækkaði í liðinu. Það er síðan verkefni næsta þings að tryggja að þessi aukning gangi inn í grunninn til almennu löggæslunnar úti um allt land. Þetta eru líka fjármunir til bætts aðbúnaðar hjá lögreglumönnum og þar sem þörfin er mest, í fámennum lögregluliðum úti á landi, skipta slíkir fjármunir mestu máli. Þess vegna er ánægjulegt að þessari vinnu er nú lokið þannig að starfsemin sé tryggð út þetta ár og ekki þurfi að koma til frekari skerðingar í þeirri mikilvægu velferðar- og grunnþjónustu sem almenna löggæslan er.

Víða eru fámenn lið og óbreytt ástand, erfitt hjá mörgum, en ekki hefði verið viðunandi ef frekar hefði þurft að fækka í liðum. Ég fagna þessu því og þakka ráðherra fyrir skjót og jákvæð vinnubrögð í þessu máli.