141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

störf þingsins.

[15:23]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vek í fyrsta lagi athygli þingmanna á nýrri skoðanakönnun um Evrópusambandsmál sem ætti að vera umhugsunarefni fyrir okkur öll þegar ljóst er að viðræðunum er haldið áfram þrátt fyrir yfirlýsingar um annað. Það eina sem hefur breyst frá því sem áformað hafði verið er að ekki eru opnaðir þeir kaflar viðræðnanna sem líklegastir eru til þess að valda mestum deilum, sjávarútvegsmál og landbúnaðarmál, sem þýðir til dæmis að þegar kemur að kosningum mun ekki liggja fyrir af hálfu ríkisstjórnarflokkanna hvaða áherslur þeir ætluðu að fara með inn í þessar viðræður gagnvart Evrópusambandinu um sjávarútvegsmál og landbúnaðarmál. Þetta er kallað af ráðherrum ríkisstjórnarinnar að koma viðræðunum í var. Maður veltir fyrir sér: Var fyrir hverju, var fyrir gagnrýni, var fyrir kjósendum — var fyrir hverju? Hvað áttu hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. atvinnuvegaráðherra við þegar þeir töluðu um að koma viðræðunum í var fyrir kosningar? Var það einfaldlega það að þeir þyrftu ekki að sýna á spilin í þessum tveimur mikilvægustu og erfiðustu málaflokkum Evrópusambandsviðræðnanna? Það er mikilvægt að það komi fram í þinginu áður en því lýkur.

Þetta er einnig mjög sérstakt þegar horft er til þess að af hálfu margra talsmanna annars stjórnarflokksins, Samfylkingarinnar, er látið eins og stærsta kosningamálið í vor verði Evrópusambandsaðildin. Ekki er hægt að skilja þá öðruvísi og lykilmenn í þingflokknum kinka kolli í salnum til að taka undir þetta. Þeir eru samt ekki tilbúnir að standa þannig að verki í þinginu að lögð sé fram tillaga eða samningsafstaða (Forseti hringir.) Íslands í köflunum sem alla tíð hefur legið ljóst fyrir að yrðu viðkvæmastir og erfiðastir.