141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

störf þingsins.

[15:26]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Hér hefur spunnist nokkur umræða um verðtryggingu. Það er út af fyrir sig ágætt og eindregin skoðun þess sem hér stendur að við þurfum að hverfa frá því fyrirkomulagi hvort sem við höldum okkur við íslensku krónuna eða skiptum yfir í evruna. Það verður hins vegar að vara þingmenn Framsóknarflokksins við því að reyna að selja hér einhverja snákaolíu. Þó að menn afnemi verðtrygginguna er það hárrétt hjá hv. þm. Sigmundi Erni Rúnarssyni að það mun leiða til hærra vaxtastigs. Vextirnir og fjármagnskostnaðurinn hverfa ekkert. Þess vegna er rétt hjá formanni Samfylkingarinnar, Árna Páli Árnasyni, að til lengri tíma litið er grundvallaratriðið að eignast alvörugjaldmiðil.

Hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni til upplýsingar ræddu lífeyrissjóðirnir á fundi með þingmönnum í vikunni um lán á föstum vöxtum, eins og tíðkast í öðrum löndum. Þeir töldu að vextir á slíkum lánum í íslenskum krónum þyrftu að nema 9% á ári og væri fyrst hægt að bjóða þá þegar hér hefði verðbólga verið lág í 20 ár samfleytt sem enn hefur ekki náðst. Fari hv. þingmaður inn á vef til að mynda Danske bank sér hann að dönskum húsnæðiskaupendum með sinni stöðu í evrópska myntsamstarfinu og tengingu við evruna eru boðnir 3% fastir vextir til 30 ára.

Hér er himinn og haf á milli. Beri menn saman breytilegu vextina sem þar bjóðast, sem eru jafnvel enn lægri, jafnvel þó að þeir séu sögulega lágir á Íslandi í dag miðað við það sem við erum vön og séu ekki nema 7%, sem eru auðvitað gríðarlega háir vextir og mikil byrði fyrir venjulegt launafólk, eru líka þeir vextir hér á Íslandi margfalt hærri. Þess vegna er það grundvallaratriði um lífskjörin. Til þess að við megum nálgast þau lífskjör sem menn búa við á meginlandinu og í Danmörku og Svíþjóð, eins og áðan var nefnt, verðum við að hverfa (Forseti hringir.) frá þessum gjaldmiðli sem hefur reynst heimilunum í landinu svo illa, svo illa. Það er hárrétt hjá formanni Samfylkingarinnar.