141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

störf þingsins.

[15:30]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það lýsir væntanlega engu öðru en barnaskap mínum að láta enn fara í taugarnar á mér þann útúrsnúning sem er landlægur í þingsal eftir að hafa verið hér í bráðum fjögur ár en ég geri það samt og vonast sannast að segja til þess að ég vaxi ekki upp úr því.

Mér fannst leiðinlegt hérna í gær þegar menn reyndu að snúa út úr því þegar ég sagðist sem formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar ætla að bíða eftir því að álit Feneyjanefndar yrði þýtt. Ég vonaðist til þess að því verki gæti lokið í gær. Hins vegar kom í ljós að það var ekki hægt og ég vil taka það fram, virðulegi forseti, að það var ekki af neinum annarlegum ástæðum sem það var ekki strax birt á vef Alþingis.

Útúrsnúningurinn er ekki bara í þingsal, heldur er hann líka á fréttastofu Ríkisútvarpsins. Ég heyrði í hádegisfréttum í dag látið liggja að því að álitið hefði verið birt eftir hádegisfréttir Ríkisútvarpsins í gær. Svo virtist eiga að heita sem fréttamenn hefðu fengið það og það hefði orðið til þess að álitið var birt. Það er rangt.

Ég vil líka segja að kvöldfréttir í Ríkisútvarpinu í gærkvöldi af Feneyjanefndarálitinu bentu til þess að fréttamennirnir hefðu ekki lesið breytingartillögur meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar við stjórnarskrárfrumvarpið. Mér finnst ámælisvert að Ríkisútvarpið skuli ekki fara rétt með fréttir en halda sig þvert á móti við þann útúrsnúning (Forseti hringir.) sem því miður tíðkast í þessum sal og við eigum að láta af. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)