141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

nauðasamningar þrotabúa föllnu bankanna og útgreiðslur gjaldeyris.

[16:56]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir tóninn í þessari umræðu. Guð láti gott á vita. Vonandi berum við gæfu til að vinna saman að þessu stóra máli.

Það skiptir máli að við drögum réttar ályktanir af þessu. Við verðum að horfast í augu við að áætlanir sem lagt var upp með gengu ekki eftir. Seðlabankastjóri sagði á ársfundi Seðlabankans í mars 2010 að Íslendingar ættu að komast sem fyrst út úr gjaldeyrishöftunum. Hann sagði þá, sem var alveg rétt, að glötuð viðskiptatækifæri færðust í vöxt vegna haftanna. Þetta var í mars 2010.

Það er alveg ljóst að þær áætlanir sem voru uppi, mat á stöðunni, voru rangar — alrangar. Þetta snýst í raun ekki um 400 eða 600 milljarða, ég hugsa að þetta fari hátt upp í 1.600 milljarða, því að þetta snýst um þær krónur sem vilja komast út úr hagkerfinu. Þær eru í Landsbankaskuldabréfinu, þær eru í eignum þrotabúanna, þær eru í öðrum skuldum eins og orkufyrirtækjunum, sveitarfélögunum, ríki og einkaaðilum. Síðan eru það hinar svokölluðu aflandskrónur, eða krónur í eigu erlendu aðilanna.

Það er alveg ljóst að eftirgjöf er nauðsynleg, einhvers staðar verður að gefa eftir. Það má ekki verða hjá almenningi, það væri mikið slys. En við verðum líka að koma okkur út úr gjaldeyrishöftunum. Það eru þau sem koma í veg fyrir fjárfestingu og koma í veg fyrir betri lífskjör hér. Ég hef líka áhyggjur af því, það er nú erfitt að ræða þessi mál á þessum stutta tíma, að vextir og arðgreiðslur eru undanþegnar gjaldeyrishöftunum. Vaxtastig Seðlabankans ýtir undir þær útgreiðslur svo það er enn ein vísbending um að við erum kannski ekki á réttri leið þar.

Mér finnst, virðulegi forseti, mjög mikilvægt að við köllum alla þá aðila til sem við teljum skynsamlegt að gera og ekki bara hér innan þingsins. Við verðum að taka höndum saman frammi fyrir vandamáli af þessari stærð og fá þá erlendu aðila sem best þekkja til, sem hafa komið að svipuðum aðstæðum, að borðinu með okkur (Forseti hringir.) til að meta stöðuna. Við þurfum að kalla til þá sem hafa (Forseti hringir.) bestu þekkinguna og mestu reynsluna í verkefnum af þessu tagi til að takast á við þetta verkefni með okkur.