141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

samskipti lögregluyfirvalda við FBI og aðkoma innanríkisráðherra.

[11:18]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Að mínu mati er það alrangt sem fram kemur hér hjá hæstv. innanríkisráðherra, að þetta hafi verið tvö aðskilin mál. Þetta var eitt og sama málið og það er faglegt mat ríkissaksóknara, Sigríðar Friðjónsdóttur, sem er yfirmaður rannsóknarmála á Íslandi. Ríkissaksóknari kom því skýrt á framfæri við okkur á nefndarfundi í gær að hún hefði verið mjög hissa og þótt afar sérkennilegt hvernig ráðuneytið kom að þessu máli. Hún vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið.

Fyrst er sett í gang rannsókn vegna yfirvofandi tölvuárásar. Það er fyrsti atburðurinn í málinu. Seinna kemur ungur maður því á framfæri að hann vilji uppljóstra um þetta mál, gerast uppljóstrari, „whistle blower“, eins og það heitir. Það kemur líka fram í gögnum frá innanríkisráðuneytinu sem voru send til utanríkismálanefndar og mér skilst að sé enginn trúnaður á. Hann vissi af þessari lögreglurannsókn bandarískra og íslenskra stjórnvalda og vildi uppljóstra um málið.

Það er rangt hjá hæstv. ráðherra að þetta séu tvö aðskilin mál og að mínu mati hefur hæstv. ráðherra gripið inn í rannsókn máls. (VigH: Rétt.) Ég tel ekki hægt að búa við það. Hvað gerum við þá? Trúum öðrum hvorum aðilanum, þetta er bara orð gegn orði, orð ríkissaksóknara gegn orði hæstv. innanríkisráðherra, og málið er þá dautt. Það er önnur leiðin.

Hin leiðin er að reyna að rannsaka þetta mál á vegum Alþingis og reyna að komast að hinu sanna.

Þriðja leiðin er hugsanlega bara að bíða og sjá hvað skeður, að reyna að finna út það rétta ef eitthvað nýtt kemur uppi í málinu. Að mínu mati er algjörlega ljóst að ráðherra lenti á villigötum (Forseti hringir.) í málinu af pólitískum ástæðum og tók ranga ákvörðun. (Gripið fram í: Rétt.)