141. löggjafarþing — 82. fundur,  15. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[13:03]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við höfum haft góðan tíma til að fara yfir þessi mál. Umræðan hefur því miður einkennst dálítið af því að menn hafa talað um form og aðra hluti en innihaldið.

Í mannréttindakafla stjórnarskrár er farið fram með mörg mjög framsækin atriði. Það skiptir máli að þjóðþingið sé tilbúið að vera þar í fararbroddi á sama hátt og við höfum innleitt í lög á undanförnum árum ýmis ákvæði sem hafa gengið langtum framar því sem er í gildandi stjórnarskrá, jafnvel þó að mannréttindakaflinn hafi verið endurskoðaður fyrir ekki svo löngu.

Það eru líka áherslur í þá veru að það sé mikilvægt að ýmis þau mannréttindaákvæði séu sveigjanleg og opin fyrir túlkun dómstólanna, að við séum ekki að binda stjórnarskrána þannig að hún standist ekki tímans tönn varðandi það hvernig þessir hlutir þróast. Það væri áhugavert að heyra álit hv. þingmanns á þeim efnum.