141. löggjafarþing — 86. fundur,  25. feb. 2013.

sértæk þjálfun, hæfing og lífsgæði einstaklinga með fjölþættar skerðingar.

588. mál
[16:10]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að koma fram með þetta mikilvæga mál og hæstv. ráðherra fyrir að tala hér um heildstæða nálgun. Ég held nefnilega að það skipti mjög miklu máli að við lítum heildstætt á þjónustu við fatlað fólk, að við lítum á það sem mannréttindamál og að við lítum fyrst og fremst á fötlunina í tengslum við hvernig samspilið við samfélagið gengur og þar kemur náttúrlega notkun hjálpartækja inn.

Þá finnst mér skipta mjög miklu máli að við höfum í huga að við erum með tilraunaverkefni í gangi með notendastýrða persónulega aðstoð sem ég held að skipti einnig miklu máli.

Þá langar mig að minna á að við erum því miður ekki búin að ganga alveg nógu vel frá því hvernig atvinnumálum fatlaðs fólks verður háttað. Einnig vil ég minna á að við erum í raun og veru að vinna endurmat á stöðunni við yfirflutninginn. Það er því ýmislegt sem er verið að skoða í kerfinu. Þar á meðal er það sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir talaði um. Af því að ég sit í hópi sem er að endurskoða fyrirkomulag foreldra- og umönnunargreiðslna vil ég nefna að sú endurskoðun er í gangi.