141. löggjafarþing — 87. fundur,  25. feb. 2013.

umræða um 2. dagskrármál.

[16:25]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég tel að við eigum heimtingu á að fá skýringar hjá hæstv. forseta af hverju málið er tekið af dagskrá. Það er á dagskrá og maður gengur út frá því að henni verði haldið. Ég tel að það sé algjörlega ófært ef hæstv. innanríkisráðherra, Ögmundur Jónasson, á að hafa eitthvert úrslitavald um það hvort málið sé á dagskrá eða ekki og blandi sínu máli inn í, sem er um skilyrði fyrir beitingu símahlustunar. Það er ekki sama málið, það er annað mál. Sumt af því er líkt, en er samt annað mál og þarf miklu meiri skoðunar við en það mál sem hann flytur sem frumvarp. Þetta er þingsályktunartillaga.

Það kom líka fram í máli hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur að nefndaráliti hafi verið dreift skömmu áður en málið var tekið á dagskrá. Ég vil benda á að þetta nefndarálit er nánast nákvæmlega eins og nefndarálitið í fyrra. Það er ekkert nýtt að gerast í þessu máli. Það er því alveg hægt að taka þessa umræðu.

Ég tel að hæstv. forseti skuldi okkur skýringu á því að ef taka á þetta mál virkilega af dagskrá (Forseti hringir.) af hverju í ósköpunum á að gera það.