141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[15:00]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Hér er breytingartillaga sem meiri hlutinn stendur að, og líka sú er hér stendur, um að bæta inn í frumvarpið að Ríkisútvarpið eigi að hafa starfsstöð eða starfseiningu á völdum svæðum utan höfuðborgarsvæðisins. Ekki var gert ráð fyrir því í frumvarpinu en við töldum mikilvægt að setja þá kvöð, að einhverju leyti má kalla það því nafni, á Ríkisútvarpið að starfsstöðvar verði um landið. Ekki er skorið úr um það hvar það eigi að vera, það verður Ríkisútvarpið að skoða sjálft, en við teljum ekki nægjanlegt að sinna landsbyggðinni héðan af höfuðborgarsvæðinu með einhvers konar fjarstýringu eða af sjálfstætt starfandi einstaklingum, heldur verði sérstakar starfsstöðvar á landsbyggðinni líka.