141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[15:18]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Við erum að takmarka kostun í Ríkisútvarpinu en gerum undantekningar á því hvenær megi koma til kostunar. Ég vil vekja sérstaka athygli á því að þarna erum við að heimila Ríkisútvarpinu kostun við útsendingu íburðarmikilla dagskrárliða, og það stendur ekki „alþjóðlegra“. Það er verið að opna aðeins frá fyrstu hugsuninni í þessu — þarna erum við að tala um Ólympíuleika, heimsmeistara- og Evrópumót í knattspyrnu og handknattleik og söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva svo að dæmi séu tekin. En ég vil draga það sérstaklega fram að þarna erum við líka að tala um innlendu söngvakeppnina í aðdraganda evrópsku söngvakeppninnar. Þetta gefur Ríkisútvarpinu því svigrúm til kostunar á ýmsum slíkum atburðum.